Fimmta úthlutun VAXNA 2012-2013

Á fundi sínum 7. júní sl. samþykkti verkefnisstjórn Vaxtarsamnings Norðausturlands að veita sex verkefnum vilyrði um þátttöku. Alls bárust átta umsóknir að þessu sinni þar sem sótt var um 34,6 mkr. en áætlaður heildarverkefniskostnaður var 77,3 mkr.
Heildarupphæð veittra styrkvilyrða var 11,0 mkr. og er heildarverkefniskostnaður þeirra verkefna sem vilyrði hlutu áætlaður um 56,5 mkr.

Með þessari úthlutun hefur verið úthlutað úr samningnum til 24 verkefna, samtals 52,4 mkr. og standa um 30 mkr. eftir til ráðstöfunar en samningurinn gildir út árið. Hefur verkefnisstjórn ákveðið að næstu umsóknarfrestir verði 30. ágúst, 24. september og 5. nóvember.

 Styrkvilyrði voru afhend á veitingastaðnum Sölku 12. júní sl. Þau verkefni sem vilyrði hlutu að þessu sinni eru:

Alþjóðleg rannsóknarstöð á Raufarhöfn – allt að kr. 2.000.000,- Forsvarsaðili Náttúrustofa Norðausturlands og samstarfsaðilar Byggðastofnun, Norðurþing, Guðmundur Örn Benediktsson, Hótel Norðurljós, Farfuglaheimilið á Kópaskeri, Hreiðrið - gistiheimili og Gistiheimilið Sólsetur. Verkefnisstjóri er Þorkell Lindberg Þórarinsson. Markmið verkefnisins er að koma á fót alþjóðlegri rannsóknarstöð á Raufarhöfn sem yrði innan alþjóðlegt nets náttúrurannsókna- og vöktunarstöðva á Norðurslóðum (INTERACT). Verkefnið felst í kortlagningu svæðisins sem rannsóknarsvæðis, en það er m.a. mjög áhugavert útfrá fari fugla, þarfagreiningu varðandi húsnæði, kynningu á verkefninu meðal háskóla og rannsóknarstofnana innanlands og erlendis og fjármögnun.

Hundaskólinn við Húsavík – allt að kr. 1.000.000,- Forsvarsaðilar Aðalsteinn J. Halldórsson og Elísabet Gunnarsdóttir og samstarfsaðilar Endurmenntunardeild Landbúnaðarháskóla Íslands, Gunnar Einarsson, Vores Hundecenter og Halldór Sigurðsson. Verkefnisstjóri er Elísabet Gunnarsdóttir. Markmið verkefnisins er að koma upp hundaskóla til þjálfunar fjárhunda en einnig almenn hlýðninámskeið, spornámskeið og fleira og síðar meir þjálfun veiðihunda. Ræktun og sala ásamt sýningarhaldi verður einnig hluti starfseminnar. Verkefnið felst í nauðsynlegri undirbúningsvinnu, s.s. þróun og gerð námsefnis, viðskiptaáætlunar og uppsetningu kynningarefnis, m.a. netinu.

MýSköpun – uppbygging innviða og vísir að stofnasafni – allt að kr. 2.500.000,- Forsvarsaðili er MýSköpun ehf. og samstarfsaðilar Háskólinn á Akureyri og Náttúrufræðistofnun Íslands (Akureyrarsetur). Verkefnisstjóri er Arnheiður Rán Almarsdóttir. Markmið verkefnisins er að auka þekkingu á örverulífríki Mývatns og byggja upp færni sem nýtist til að einangra, greina og rækta þær sömu og skapa þannig grunn fyrir framleiðslu og sölu verðmætra lífefna með nýtingu staðbundinnar jarðorku. Verkefnið felst í að einangra, greina og skilgreina vaxtarskilyrði þörunga og annarra örvera sem hafa eiginleika sem eru áhugaverðir til framhaldsræktunar í stærri stíl. Þetta verður gert með því að byggja upp innviði fyrirtækisins þ.m.t tækjakost, rekstrarvörur, stofnasafn, fræðilegan grundvöll og tengsl.

Áfangastaðir á starfssvæði Norðurhjara – allt að kr. 1.000.000,- Forsvarsaðili er Norðurhjari – ferðaþjónustuklasi og samstarfsaðilar um 30 aðilar klasans. Verkefnisstjóri er Inga Fanney Sigurðardóttir. Markmið verkefnisins er að koma upp 12 gæða áfangastöðum á starfssvæði klasans þar sem m.a. verði komið fyrir skiltum með upplýsingum fyrir ferðamenn. Verkefnið felst í því að velja staðina í samráði við hagsmunaðila og hönnuði, skipuleggja og hanna þá og vinna framkvæmdaáætlun.

Nytjasmiðja á Laugum – allt að kr. 2.500.000,- Forsvarsaðili er Kjarni ehf. og samstarfsaðilar Matís ohf. og Háskólinn á Akureyri. Markmið verkefnisins er að koma upp svokallaðri nytjasmiðju þar sem til staðar verði viðurkennd og vottuð aðstaða til vöruþróunar matvælavinnslu fyrir smáframleiðslu af ýmsu tagi. Verkefnið felst í því að koma aðstöðunni upp, styðja við þróun hennar í samræmi við þarfir viðskiptavinanna og markaðssetningu til þriggja ára.

Raufarhöfn – áfangsstaður framtíðarinnar – allt að kr. 2.000.000,- Forsvarsaðili er Arctic Edge Consulting ehf. og samstarfsaðilar Heimskautsgerðið á Raufarhöfn, Norðurhjari – ferðaþjónustuklasi, „Raufarhafnarhópurinn” og aðilar úr stoðkerfi og ferðaþjónustu í Rovaniemi í Finnlandi. Verkefnisstjóri er Gunnar Jóhannesson. Markmið verkefnisins er að byggja Raufarhöfn upp sem áfangastað ferðamanna með Heimskautsgerðið sem höfuð aðdráttarafl þar sem nálægðin við heimskautsbaug og náttúra og saga staðarins myndi heildarþema sem standi að baki „vörumerki” (e. branding) staðarins. Verkefnið felst í skilgreiningu og uppbyggingu samstöðu um þá þætti sem standi að baki vörumerkinu, þróun á vörum og þjónustu sem byggi á og nýti sér aðdráttarafl staðarins ásamt því að nýta sjálft uppbyggingarferli Heimskautsgerðisins til markaðssetningar í ferðaþjónustu.

Fulltrúar þeirra verkefna sem hlutu vilyrði fyrir styrk í fimmtu úthlutun VAXNA.
Ari Páll Pálsson fh. Raufarhafnarhópsins, Aðalsteinn Snæbjörnsson fh. Rannsóknarstöðvar á Raufarhöfn, Arnheiður Almarsdóttir og Geir Arngrímsson fh. Mýsköpunar og Baldur Daníelsson og Baldvin Áslaugsson fh. Nytjasmiðju á Laugum.
Á myndina vantar fulltrúa Norðurhjara og Hundaskólans við Húsavík.

 

 

 

 

 

 

Comments are closed.