Flýtitenglar

Fuglastígur á ferð og flugi

Fuglastígur á Norðausturlandi hefur unnið að því undanfarin ár að efla fuglatengda ferþaðjónustu á svæðinu.  Í fyrra hóf félagið samstarf við Norska fyrirtækið Biotope sem staðsett er í Varanger nyrst í Noregi. Stofnendur Biotope eru hjónin Tormod Amundsen og Elin Taranger sem bæði eru arkítektar. Með áratuga reynslu af fuglaskoðun og fuglaljósmyndun hafa þau sérhæft sig í þróun og hönnun á aðstöðu til fuglaskoðunar á norðlægum slóðum sem hefur hlotið mikla eftirtekt og lof.

Tormod og Elin heimsóttu Fuglastíg í október 2014 og kynntu sér aðstæður í sjö daga hringferð um fuglaskoðunarstaði á Norðausturlandi. Á ferð sinni nutu þau leiðsagnar og gestrisni fjölmargra aðila Fuglastígsins. Mikil áhugi og ánægja er af hálfu beggja samstarfsaðila með verkefnið sem nýtur styrks frá Vaxtarsamningi Norðausturlands.

Þau Tormod og Elin komu svo aftur í tveggja vikna heimsókn í júlí til að vinna að þróun Fuglastígsins. Á vefsíðu Biotope gera þau heimsóknunum góð skil með frábærum myndum af svæðinu, m.a. loftmyndum sem teknar eru með dróna.

http://www.biotope.no/2015/07/birding-iceland-in-summer-destination.html

Fuglastígur hefur að undanförnu einnig verið í samstarfi við Markaðsstofu Norðurlands og fleiri um fuglatengda ferðaþjónustu. Árið 2013 hlaut verkefnið Fuglastígur á Norðurlandi vestra vaxtarsamningsstyrk. Verkefnið er auðvitað hliðstætt og hefur að ýmsu leiti verið mótað á þeirri vinnu sem hér hefur átt sér stað, t.d. hönnun og  uppbygging kortabæklings.

Markaðsstofa Norðurlands hefur undanfarin ár sýnt Fuglastígsverkefninu mikinn áhuga og stuðning og jafnframt vilja til að útvíkka það yfir stærra svæði, þ.e. allt norðurland. Undanfarið ár hefur svo verið unnið að sameiginlegu markaðs- og þróunarstarfi fuglastíga á Norðurlandi og á vef markaðsstofunnar er nú búið að opna glæsilega síðu sem gerir fuglaskoðun á Norðurlandi góð skil, m.a. með gagnvirku korti.

http://www.northiceland.is/birding

Nú um helgina stendur yfir Birdfair í Bretlandi, árleg fuglaskoðunarkaupstefna sem haldin hefur verið í Rutland í í Bretlandi síðan 1989 og mun vera stærsta viðburður sinnar tegundar í heimi. Fuglastígur á Norðausturlandi hefur tekið þátt í kynningarbás á Birdfair síðan 2009, þá í samstarfi við Íslandsstofu. Á síðasta ári tók Markaðsstofa Norðurlands við keflinu af Íslandsstofu og er þetta annað árið sem þeir Markaðsstofan stendur fyrir kynningarbás á Birdfair í samstarfi við ferðaþjónustuaðila. Meðal fulltrúa okkar á Birdfair eru Gaukur Hjartarson og Jóhann Óli Hilmarsson og því óhætt að segja að kynningin verður í góðum höndum.

Sýningarbásinn - smellið á myndina til að sjá fleiri myndir á FB síðu Markaðsstofunnar