Flýtitenglar

Sigurður S. Þórarinsson og Hafdís Jósteinsdóttir hlutu hvatningarverðlaun AÞ

Frá árinu 2002 hefur Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga árlega veitt hvatningarverðlaun í tengslum aðalfund félagsins. Markmiðið með verðlaununum er að hvetja til nýsköpunar og árangurs í rekstri með því að verðlauna það sem vel er gert á þessu sviði. Á aðalfundi AÞ, sem haldinn var á Húsavík fimmtudaginn 28. júní 2018, var þessi viðurkenning veitt í 17. sinn og hlutu hjónin Sigurður S. Þórarinsson og Hafdís Jósteinsdóttir viðurkenningu fyrir uppbyggingu á farsælum fjölskyldurekstri sem nú færist á herðar afkomenda.

Þau Sigurður og Hafdís voru bæði í launavinnu framan af starfsæfinni en gerðust sjálfstæðir atvinnurekendur á miðjum starfsaldri. Árið 1989 keyptu þau Fatahreinsun Húsavíkur og réðust í endurbætur og stækkun á húsnæðinu. Ári síðar opnaði áfengisútsala í húsakynnum fatahreinsunarinnar og sinntu þau rekstri hennar til ársins 2007, þegar Vínbúðin var flutt. Þau héldu hins vegar áfram að efla rekstur fatahreinsunarinnar og enn er verið að stækka. Nú er fyrirtækið að færast til þriðju kynslóðar og e.t.v. er fátt ánægjulegra en að skila góðum rekstri til afkomenda sinna, sagði Reinhard Reynisson við þetta tækifæri.

Hjónin þökkuðu fyrir viðurkenninguna og Sigurður rifjaði upp að á fyrstu árunum leitaði hann til atvinnuþróunarfélagsins, sem þá var undir stjórn Tryggva Finnssonar. Sigurður sagði jafnframt að velgengni í rekstri byggist á því að þau hafi verið einstaklega heppin með starfsfólk. Þá hafi fjölskyldan staðið saman að þessu, börn og barnabörn, og samfélagið einnig verið þeim hliðholt. Hann sagðist að endingu vona að svo yrði áfram.