Flýtitenglar

Gunna í Urð hlýtur hvatningarverðlaun AÞ

Hvatningarverðlaun Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga voru veitt í 18. sinn í tengslum við ársfund félagsins sem haldinn var á Raufarhöfn 29. maí 2019. Viðurkenninguna hlaut að þessu sinni Guðrún Rannveig Björnsdóttir fyrir þrautseigju og dugnað við að halda úti nauðsynlegri grunnþjónustu við samfélagið á Raufarhöfn, þar sem hún hefur rekið verlsunina Urð um árabil. Markmiðið með verðlaununum er að hvetja einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir til nýsköpunar og árangurs í rekstri með því að verðlauna það sem vel er gert á þessu sviði.

Framkvæmdastjórinn fylgdi viðurkenningunni úr hlaði með ávarpi þar sem hann stiklaði á stóru um rekstur Urðar og mikilvægi hans fyrir samfélagið. Það má öllum vera ljóst að verslunarstarfsemi í strjálbýli úr alfaraleið er ekki drifin áfram af hagnaðarvon einni saman, heldur er þjónusta við samfélagið ekki minni hvati.
Gunna, eins og hún er jafnan kölluð, hóf verslunarstarfsemi í kjallara í foreldrahúsum og síðan í eigin bílskúr, en Urð hefur verið rekin í núverandi húsnæði síðan 1995. Þá voru íbúar á Raufarhöfn um 400 talsins og það hefur líklega ekki auðveldað samkeppnisforsendur að síðan þá hafa samgöngur batnað og íbúum fækkað. Gunna hefur þó engan bilbug látið á sér finna og aldrei orðið hlé á verslunarrekstri líkt og víða hefur gerst.

Auk mikilvægrar þjónustu er jafnframt um atvinnusköpun að ræða, ríflega fullt starf fyrir Gunnu og hálft til eitt starf til viðbótar. Við óskum Gunnu til hamingju.