Flýtitenglar

Þróun atvinnutekna 2008-2018 eftir atvinnugreinum og landshlutum

Byggðastofnun hefur birt skýrslu um atvinnutekjur eftir landshlutum og atvinnugreinum fyrir tímabilið 2008-2018. Í skýrslunni er margt forvitnileg en mikill munur er á þróun heildaratvinnutekna eftir greinum og svæðum. Þegar Þingeyjarsýsla er skoðuð sérstaklega virðast áhrif iðnaðaruppbyggingar á Bakka og Þeistareykjum nokkuð greinileg.

Heildaratvinnutekjur á landinu öllu námu 1.316 milljörðum kr. 2018 á árinu sem var aukning um 4,9% frá árinu 2017. Frá 2008 hafa atvinnutekjur á landinu öllu aukist um 24%. Mest aukning á tímabilinu 2008-2018 var í greinum tengdum ferðaþjónustu.

Heildaratvinnutekjur á Norðurlandi eystra á árinu 2018 námu 102 milljörðum kr. og höfðu aukist um 3,2% frá fyrra ári en 21% frá árinu 2008, sem er aðeins undir landsmeðaltali.
Meðalatvinnutekjur á Norðurlandi eystra voru um 90% af landsmeðaltali. Akureyri var á meðaltalinu en Eyjafjörður án Akureyrar heldur undir meðaltali landshlutans. Þingeyjarsýslurnar voru yfir meðaltali landshlutans sem er breyting frá árinu 2008 þegar meðaltekjurnar voru lægstar þar.

Hlutfall atvinnutekna kvenna á Norðurlandi eystra var 38,2% á árinu 2018 sem er undir landsmeðaltali. Hlutfallið er heldur hærra á Akureyri en í Þingeyjarsýslum og í Eyjafirði án Akureyrar.

Stærstu atvinnugreinarnar á svæðinu á árinu mældar í atvinnutekjum voru heilbrigðis- og félagsþjónustu og fræðslustarfsemi en þar á eftir komu iðnaður og mannvirkjagerð. Í Eyjafirði án Akureyrar var fiskvinnsla stærsta greinin og iðnaður næst stærstur, en í Þingeyjarsýslum var mannvirkjagerð og iðnaður stærstur sem skýrist líklega af framkvæmdum við iðnaðaruppbyggingu á Bakka og Þeistareykjum.

Upplýsingarnar sem skýrslan hefur að geyma eru settar fram á aðgengilegan hátt í myndrænu formi. Skýrsluna má finna á vef Byggðastofnunar:

Atvinnutekjur 2008-2018 eftir atvinnugreinum og landshlutum