Flýtitenglar

Tómatar, silungur og jarðskjálftar – Heimsókn starfsmanna á suðursvæðið

Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga (AÞ) sinnir stóru svæði eða um 18.500 ferkílómetrum. Um daginn lögðu starfsmenn land undir fót til að kynna sér ákveðin svæði betur. Farið var í suður og byrjað á að heimsækja Hveravelli. Hveravellir hafa verið starfandi í tugi ára við margvíslega ræktun. Í dag rækta þau aðallega tómata og gúrkur, en eru líka í papriku- og kryddjurtarækt svo að dæmi séu tekin. Páll sýndi okkur svæðið og uppfræddi okkur um reksturinn. T.d. er það svo að á svæðinu í dag er að myndast lítið þorp því margar hendur þarf til að sinna því að tína, hreinsa, pakka og sjá í heild um plönturnar. Þó er þorpið enn það fámennt að ekki er hægt að skilgreina það formlega sem þéttbýli sem þó myndi líklega létta talsvert á raforkureikningnum í rekstrinum. Gríðarlega orku þarf til að drífa áfram svona rekstur og starfsmaður AÞ hafði á orði að kannski væri viðskiptatækifæri í að selja sólarlandaferðir inn í gróðurhúsin, slíkur var hitinn og slík var birtan.

Eftir grænkera upplifunina þá héldu starfsmenn í Dimmuborgir Guesthouse þar sem Helgi Héðinsson tók á móti okkur með uppáhelltu kaffi og ógrynnum af upplýsingum um staðinn. Á svæðinu eru nokkur smáhýsi sem fjölskyldur eða hópar geta leigt. Helgi segist líkt og Hrund og Rúnar í Garði hafa tekið eftir því að vöntun væri á fjölskylduaðstöðu. Starfsmenn tóku eftir að eitt húsið var talsvert stærra en hin og með heitum potti og í alla staði vel útbúið og rúmgott. Helgi útskýrði að þetta væri húsið fyrir Íslendinga sem lítið gætu farið að heiman nema vera helst með öll heimsins lífsgæði til staðar. Helgi er ekki bara með gistiaðstöðu, hann er einnig að reykja úrvals Mývatnssilung og stefnir á að opna þvottahús bráðlega. Örugglega ekki mikill dauður tími hjá honum.

Þá var haldið upp að Kaffi Borgum þar sem snæddur var ljómandi hádegisverður en misjafnt var hvort starfsfólk valdi sér hamborgara eða fiskmeti. Hvort sem valið var rann það ljúflega niður og móttökur voru með eindæmum góðar.

Saddir og sælir starfsmenn héldu þá til móts við starfsmenn Geochemý en í því fyrirtæki starfa Helgi Arnar Alfreðsson og Júlía Katrín Björke sem bæði eru jarðfræðingar og starfa við sýnatökur fyrir Landsvirkjun og fleira. Þau sigruðu Eiminn á Atvinnu og nýsköpunarhraðlinum á Akureyri árið 2018 með verkefnið „Living on a Volcano“.  Lokafurð verður metnaðarfull sýning þar sem jarðhitinn, eldfjöllin og samspil manns og náttúru eru í aðalhlutverki  og verður sýningin staðsett við Bjarnarflag. Þau hafa verið að þróa hugmyndina í þónokkurn tíma og fyrsti hluti af henni er að bjóða gestum upp á gönguferðir þar sem fræðsla varðandi jarðfræðina og – skjálfta eru í forgrunni og fóru þau nokkrar gönguferðir nú í sumar. Næst á dagskrá er að opna heimasíðu varðandi verkefnið og þegar hún er komin upp munu þau halda áfram að finna fjármuni og aðstöðu fyrir safnið. Þau eru stórhuga en afar raunsæ og hafa sett upp gríðarlega flotta viðskipta- og framkvæmdaáætlun. Áður en við fórum þá upplýstu þau okkur um drykkur sé í þróun úr nýsköpun í Mývatnssveit og að hann heiti Andi Mývatns. Það verður spennandi að fylgjast með þessu unga fólki og framvindunni í verkefninu.

Að síðustu var tekið hús á Þeistareykjarvirkjun. Þar fengu starfsmenn AÞ innsýn inn í dagsdaglegan rekstur virkjunarinnar og  útsýnistúr um bygginguna. Fagmennskan er gríðarleg og hefur gerð virkjunarinnar verið tilnefnd til verðlauna Alþjóðasamtaka verkefnastjórnunarfélaga- IPMA Global Project Excellence Award og eru þessi verðlaun þau stærstu sem veitt eru fyrir verkefnastjórnun á heimsvísu. Einnig var framkvæmdin innan fjárhagsáætlunar sem þykja tíðindi hér á landi og því greinilegt að vel hefur verið staðið að þessu frá öllum hliðum.

Starfsmenn AÞ þakka fantafínar móttökur allsstaðar og óska þessu dugnaðarfólki velfarnaðar í áframhaldandi uppbyggingu.