Flýtitenglar

Fulltrúaráð AÞ samþykkir sameiningu við Eyþing og AFE

Samþykkt var á fulltrúaráðsfundi atvinnuþróunarfélagsins í Skúlagarði í 19. nóvember 2019 að sameina starfsemi félagsins, Eyþings og Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar í nýjum landshlutasamtökum. Tillaga um sameiningu félaganna hafði þegar verið samþykkt af Eyþingi og Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar og mun nýtt félag taka til starfa 1. janúar.

Svohljóðandi afgreiðslutillaga meirihluta stjórnar var samþykkt af fulltrúaráði með 11 atkvæðum gegn 2 og 1 sat hjá;

Fulltrúaráðsfundur Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga ses. , haldinn í Skúlagarði 19. nóvember 2019 samþykkir fyrir sitt leiti sameiningu Eyþings, Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar og Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga í ný landshlutasamtök sveitarfélaga á Norðurlandi eystra. Ný samtök skulu taka við verkefnum þeirra þriggja eininga sem um ræðir. Einnig samþykkir fundurinn framlagða tillögu stýrihóps, framlagðar samþykktir, með þeim breytingum sem samþykktar voru á aðalfundi Eyþings á Dalvík 15. nóvember sl. og önnur framlögð gögn er að sameiningu snúa og eiga við um hin nýju landshlutasamtök sveitarfélaga á Norðurlandi eystra.

Samþykki fundarins byggir á samþykkt aukaaðalfundar Eyþings sem haldinn var á Akureyri 9. apríl sl. sem og samþykkt aðalfundar á tillögu stjórnar Eyþings sem samþykkt var samhljóða á aðalfundi Eyþings höldnum í Mývatnssveit 21. og 22. september 2018.

Fundurinn áskilur stjórn Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga ses., að breyttu breytanda, aðkomu að því ferli sem gerð er grein fyrir í tillögu stýrihóps og vísað er til í fyrstu málsgrein samþykktar þessarar.

Fundurinn samþykkir að sameinaður rekstur taki til starfa þann 1. janúar 2020. Allt lausafé AÞ, þ.e. skrifstofubúnaður og tækjakostur, þ.m.t. tölvubúnaður, þó ekki peningalegar eignir, flytjist yfir til hinna nýju samtaka á þeim tíma án endurgjalds.

Hvað varðar aðrar eignir er stjórn falið að leggja fram tillögu að ráðstöfun og jafnframt að leggja fram tillögu að framtíð atvinnuþróunarfélagsins í einhverri mynd eða slitum þess. Skulu ákvarðanir um ráðstöfun eignanna liggja fyrir eigi síðar en 31. mars 2020.

Fundurinn telur að ýmislegt í tillögum að samþykktum hinna nýju samtaka þarfnist frekari skoðunar og þá sérstaklega ákvæði um verkefni þinga samtakanna og verkaskiptingu stjórnar.

Fundurinn leggur áherslu á að skipulag nýrra samtaka og starfsemi skuli endurspegla ólíkar byggðir á starfsvæðinu og leggur áherslu á að samtökin vinni með það að markmiði að auka samtal milli ólíkra svæða, og mismunandi atvinnugreina.

Fundurinn leggur áherslu á að starfsemi og skipulag nýrra landshlutasamtaka endurspegli atvinnustarfsemi á starfssvæðinu og efli samtal innan og á milli atvinnugreina. Með það að markmiði skal setja á stofn sérstakt atvinnu- og nýsköpunarsvið sem hafa skal sérstaka stjórn (fagráð) sem vinna skal í umboði stjórnar og aðalfundar og vinna að framþróun og eflingu atvinnulífs á svæðinu öllu. Stjórn nýrra samtaka er falið að hafa forgöngu um samningu skýrra starfsreglna fagráðsins, þar skal taka á fyrirkomulagi starfs, ábyrgð og umboði. Í fagráð atvinnulífs skal, ásamt fulltrúum sveitarfélaganna, skipa tvo fulltrúa atvinnurekenda og tvo fulltrúa stéttarfélaga og skulu þeir tilnefndir af hlutaðeigandi aðilum á svæðisbundnum forsendum.

Jafnframt leggur fundurinn til að sett verði á fót sérstakt menningarsvið sem hafi það hlutverk að efla menningu á starfssvæðinu, enda er menning ein megin undirstaða velferðar og blómlegs atvinnulífs. Sviðið skal hafa sérstaka stjórn (fagráð) sem vinna skal í umboði stjórnar og aðalfundar að framþróun og eflingu menningarlífs á svæðinu öllu. Stjórn nýrra samtaka er falið að hafa forgöngu um samningu skýrra starfsreglna fagráðsins, þar skal taka á fyrirkomulagi starfs, ábyrgð og umboði. Við skipan í fagráð menningar skal þess gætt að í ráðinu sé blanda fólks úr menningargeiranum, menningaratvinnulífinu og frá sveitarfélögunum.

Fundurinn telur mikilvægt að í starfsreglum stjórnar hinna nýju samtaka verði skilgreindar skýrar lausnir varðandi reglubundna upplýsingagjöf um störf stjórnar til skipaðra þingfulltrúa samtakanna á milli þinga þess.

Að lokum þakkar fundurinn öllum þeim er að vinnu undanfarinna mánaða hafa komið og lýsir því yfir fundurinn telur að með þessari samþykkt sé brotið blað í samvinnu sveitarfélaga í landshlutanum. Einnig er það fullvissa fundarins að allir sem að verkefninu koma muni vinna í anda þess að hagsmunum svæðisins sé best borgið með náinni samvinnu þvert á sveitarfélagamörk og atvinnugreinar.

Fulltrúi Framsýnar stéttarfélags gerði grein fyrir andstöðu félagsins við þessa sameiningu og las eftirfarandi yfirlýsingu Framsýnar frá 18. nóv. sl. um málið:

Yfirlýsing

Vegna fyrirhugaðra breytinga á starfsemi Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga

Framsýn stéttarfélag leggst alfarið gegn sameiningu Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga, Atvinnuþróunarfélags Eyfirðinga og Eyþings.

Fram að þessu hefur verið breið samstaða meðal sveitarfélaga, samtaka atvinnurekanda og stéttarfélaga í Þingeyjarsýslum um að veita samræmda og þverfaglega ráðgjafaþjónustu tengda atvinnulífi, samfélags- og byggðaþróun í gegnum Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga.

Atvinnuþróunarfélagið hefur þurft að takast á við mörg krefjandi verkefni, ekki síst vegna þess að hluti af starfssvæðinu er skilgreint sem brothættar byggðir.

Að mati Framsýnar hefur Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga skilað góðu starfi í þágu samfélagsins. Stjórn félagsins hefur verið skipuð fulltrúum frá sveitarfélögum af öllu svæðinu auk fulltrúum frá atvinnulífinu í Þingeyjarsýslum.

Miðað við fyrirliggjandi tillögur verða verulegar breytingar á starfsemi atvinnuþróunar á starfssvæði Eyþings og aðgengi sveitarfélaga og atvinnulífsins í Þingeyjarsýslum að stjórnun félagsins verður ekki með sama hætti og verið hefur.

Framsýn stéttarfélag getur því ekki sætt sig við boðaðar breytingar og leggst því alfarið gegn þeim.

Þannig samþykkt á stjórnar- og trúnaðarráðsfundi Framsýnar stéttarfélags mánudaginn 18. nóvember 2019.

Virðingarfyllst
Fh. Framsýnar stéttarfélags
Aðalsteinn Árni Baldursson