Flýtitenglar

Bakslag í íbúaþróun við lok stórframkvæmda

Starfssvæði Atvinnuþróunarfélags ÞingeyingaHagstofan hefur birt tölur um íbúafjölda á landinu 1. janúar sl. en skv. þeim fjölgaði landsmönnum um 2,4% milli ára en á Norðurlandi eystra varð hins vegar lítilháttar fækkun eða um 0,03%.

Líkt og gera mátti ráð fyrir er nokkur íbúafækkun á starfssvæði atvinnuþróunarfélagsins í kjölfar þess að framkvæmdum við byggingu kísilversins á Bakka og Þeistareykjavirkjunar er lokið. Þetta kemur skýrt fram í því að mesta fækkunin, 30,5% er í strjálbýli í Norðurþingi en vinnubúðirnar á Bakka falla þar undir, en á síðasta ári fjölgaði um 27,6% í strjálbýli í sveitarfélaginu. Þá fækkar um 8,7% í strjálbýli í Þingeyjarsveit, sem að öllum líkindum má skýra með brottflutningi starfsmanna úr vinnubúðum á Þeistareykjum, en árið áður fjölgaði í strjálbýli í sveitarfélaginu um 5,4%.

Í heildina fækkaði íbúum á milli ára um 4,4% en auk þeirrar fækkunar sem áður er nefnd fækkaði íbúum á Raufarhöfn um 9,7% eða 18 einstaklinga á milli ára. Annars staðar á svæðinu má segja að íbúafjöldinn hafi nánast staðið í stað, s.s. í Skútustaðahreppi þar sem fjölgaði um 1,8% og í Svalbarðshreppi þar sem fækkaði um 1,1% eða um einn íbúa og Tjörneshreppi þar sem fækkaði um 3 eða 5,3%.

Íbúum Langanesbyggðar fjölgaði hins vegar um 23 eða 4,8% á milli ára og er ánægjulegt að sjá að það fjölgar bæði á Þórshöfn og Bakkafirði en einnig í strjálbýlinu. Heilt yfir virðast byggðakjarnarnir standa sig betur en strjálbýlið hvað varðar íbúaþróunina þó þar séu vissulega undantekningar á.

Frekari greining á þessum tölum eru í töflunni hér að neðan og frétt Hagstofunnar má svo lesa hér.

2018 2019 Breyting Hlutfall
Norðurþing 3.234 3.042 -192 -5,9%
þar af Húsavík 2.307 2.323 16 0,7%
þar af Kópasker 122 121 -1 -0,8%
þar af Raufarhöfn 186 168 -18 -9,7%
þar af strjálbýli 619 430 -189 -30,5%
Skútustaðahreppur 493 502 9 1,8%
þar af Reykjahlíð 208 210 2 1,0%
þar af strjálbýli 285 292 7 2,5%
Tjörneshreppur 58 55 -3 -5,2%
Þingeyjarsveit 962 894 -68 -7,1%
þar af Laugar 109 115 6 5,5%
þar af strjálbýli 853 779 -74 -8,7%
Svalbarðshreppur 92 91 -1 -1,1%
Langanesbyggð 481 504 23 4,8%
þar af Þórshöfn 352 369 17 4,8%
þar af Bakkafjörður 65 69 4 6,2%
þar af strjálbýli 64 66 2 3,1%
Byggðakjarnar alls 3.349 3.375 26 0,8%
Strjálbýli alls 1.971 1.713 -258 -13,1%
Svæðið samtals 5.320 5.088 -232 -4,4%