Flýtitenglar

Spunaverksmiðja, heitir pottar og kúluís - Heimsókn starfsmanna á austursvæðið

Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga (AÞ) sinnir stóru svæði eða um 18.500 ferkílómetrum. Um daginn lögðu starfsmenn land undir fót til að kynna sér ákveðin svæði betur. Farið var austur fyrir Tjörnes og byrjað á að heimsækja Skúlagarð. Í upphafi árs tóku nýir rekstraraðilar við hótelinu og þau segja sumarið hafi gengið ágætlega og nýting betri síðari part sumars en þau bjuggust við. Í Skúlagarði er gisting í tveggja manna herbergjum og einnig veitingastaður. Nýir rekstraraðilar ákváðu í sumar að bjóða upp á kökuhlaðborð á sunnudögum sem hefur mælst vel fyrir og munu þau halda því áfram þó kannski ekki vikulega. Einnig tóku þau upp á þeirri nýbreytni að bjóða upp á kúluís og hefur það mælst vel fyrir sérstaklega hjá yngri kynslóðinni. Starfsmenn AÞ gæddu sér á dýrindis lambakjöti á veitingastaðnum í Skúlagarði í hádeginu og óhætt er að mæla með matnum.

Þá lá leið að gistiheimilinu Garði sem byrjaði starfsemi sumarið 2018. Sérstaða Garðs er að þar eru í boði fjölskylduherbergi en rekstaraðilar sögðust hafa orðið varir við gat á markaði hvað varðaði þá stærð herbergja á nærsvæðinu. Nýting hefur verið ótrúlega góð í sumar. Rekstraðilar horfa talsvert til veiðihópa og því má búast við að haustið verði líflegt hjá þeim.

Þá var haldið sem leið liggur að Gilhaga þar sem ung hjón eru að koma upp spunaverksmiðju og gestastofu. Viðskiptaáætlun og grunnhugmyndavinna var unnin af starfsmönnum verkefnisins Öxarfjörður í sókn en síðan hefur hugmyndin aldeilis dafnað í höndum þessa framtakssama fólks og stefnt er að framleiðslu strax í byrjun næsta árs. Þessu fyrir utan eru þau með kindur, endur og eru hunangsbændur. Gilhagi er staðsettur í afar fallegum dal og mátti líkja staðnum við paradís þegar sólargeislarnir kíktu á okkur í fyrsta skipti þann daginn. Rekstraraðilar hafa fjármagnað verkefnið með  hópfjármögnun ásamt öðrum leiðum og gekk sú fjármögnun framar vonum.

Svo var farið að Melum sem er elsta nústandandi íbúðarhúsið á Kópaskeri og verið er að gera upp til að sinna hlutverki gistiheimilis. Ótrúlega vel er að verki staðið og strax má sjá sérstöðu í útliti og skemmtilega hugmyndavinnu varðandi aðstöðu og upplifun á staðnum. Búið er að setja upp tvo heita potta fyrir utan húsið með frábæru útsýni og það er dásamleg tilfinning að standa út á svölum og horfa yfir hafið. Stefnt er að því að byrja starfsemi næsta sumar og þá verða fjögur herbergi í húsinu ásamt sameiginlegu rými sem getur boðið upp á ýmsa möguleika. Vandað hefur verið til verks og fagmenn í hverju horni og t.d. má nefna að aðstoð arkitekta kom alla leið frá Danmörku og smíðameistarinn er þekktur fyrir fallega uppgerð gömul hús.

Að lokum fóru starfsmenn í fjöruna á Kópaskeri til að skoða sýninguna „Heimildarlaus notkun bönnuð“ en þar hefur Guðmundur Benediktsson tekið saman gersemi sem hafið hefur skilað í fjöruna og setur upp á afar áhugaverðan og skemmtilegan hátt.

Það var glaður en þreyttur hópur starfsmanna sem kvaddi Kópasker og þökkum við öllum fyrir frábærar viðtökur. Mikið er gaman að sjá alla orkuna sem er á svæðinu okkar og það er engu að kvíða með svona framtaksmikið og kraftmikið fólk á svæðinu.