Flýtitenglar

Íbúafundur á Raufarhöfn

Íbúafundur var haldinn 12. janúar sl. á Raufarhöfn í samvinnu við Heimskautsgerðið og hverfisráð. Guðný Hrund Karlsdóttir var með góða kynningu á Gerðinu og fór vel yfir upphafið, söguna og tenginguna við Gylfaginningu og Snorra- Eddu.  Gunnar Jóhannesson fór yfir næstu skref varðandi framkvæmdina og stöðu fjármögnunar. Ljóst er að Heimskautsgerðið er í dag mikill segull ferðamanna og er gestagangur nánast daglega allan ársins hring. Ein af stærstu áskorunum Raufarhafnar næstu misseri er að fá þá ferðalanga sem í Heimskautsgerðið koma til að staldra við á Raufarhöfn örlítið lengur.

Farið var yfir meginmarkmið Raufarhafnar sem unnin voru uppúr íbúafundum Raufarhafnar og framtíðarinnar. Ýmislegt hefur áunnist en betur má ef duga skal. Eru það verkefni framtíðarinnar að vinna áfram með þau.

Meginmarkmiðin eru eftirfarandi:

Sérstæður áfangastaður

 • Að 90% íbúðahúsa í þorpinu sé viðhaldið. Höfuðatriði að ásýndin sé góð vegna starfsemi í ferðaþjónustu og anda í þorpinu.
 • Að það séu móttökuskilti með korti af þorpinu þegar komið er inn í bæinn sem og að vinna að því að bæta merkingar uppá Hólaheiði.
 • Kortleggja eldri hús á svæðinu og gildi þeirra sem standa ennþá.
 • Að gera félagsstarf og listsköpun eldri borgara sýnilegt ferðafólki.
 • Að gera höfnina aðgengilega fyrir ferðamenn.
 • Vinna áfram með hugmyndir tengdum heimskautsbaugnum sem aðdráttarafl og vettvang fyrir ferðamenn. Heimskautsgerðið og fl.
 • Á Raufarhöfn séu starfandi fyrirtæki í afþreyingu tengdri ferðaþjónustu.

Traustir grunnatvinnuvegir  

 • Að laða að ferðamenn á svæðið. Vinna að því að bæta vegsamgöngur um Sléttu.
 • Vinna að fleiri nýsköpunar-/þróunarverkefnum tengdu atvinnulífi staðarins.

Blómstrandi menntun   

 • Að hér sé starfræktur leik- og grunnskóli. Vinna áfram að því að efla eininguna og nýta betur aðstöðu til fjarfunda og fyrir námsmenn í framhalds og háskólanámi.
 • Virkja íbúa til þátttöku í tómstundanámskeiðum.

Öflugir innviðir

 • Að komið verði upp sendi fyrir háhraða netsamband í þau hverfi sem hvað lengst eru frá símstöð til að íbúar geti að fullu nýtt sér kosti þess.
 • Treysta þjónustumiðstöð í Ráðhúsinu á Raufarhöfn í sessi og viðhalda þeirri grunnþjónustu sem er til staðar í dag.
 • Tryggja áframhaldandi starfsemi í óskertri heilbrigðisþjónustu og standa vörð um sjúkrabílinn.