Flýtitenglar

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða styrkir fjögur verkefni á Norðurlandi eystra

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, gerðu í dag grein fyrir úthlutun fjármuna til uppbyggingu innviða, náttúruverndar og annarra verkefna á ferðamannastöðum árið 2020. Samtals er nú úthlutað rúmum 1,5 milljarði króna úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða og Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða veitir styrki til 33 verkefna um allt land árið 2020 sem nema samtals 501,5 milljónum króna. Alls bárust sjóðnum 134 umsóknir að þessu sinni með styrkbeiðnum upp á 2,3 milljarða.

Á Norðurlandi eystra hlutu fjögur verkefni styrki úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Af þeim hlaut Fuglastígur á Norðausturlandi hæsta styrkinn, rúmlega 23mkr til byggingar fuglaskoðunarskýla á fjórum stöðum; við Bakkahlaup í Öxarfirði og Skoruvíkurbjarg á Langanesi sem við Nýpslón í Vopnafirði og Skipshólma á Vopnafirði.

Þingeyjarsveit hlaut 16 mkr. styrk til úrbóta á salernisaðstöðu við Aldeyjarfoss. Mývatnsstofa hlaut 4,5 mkr til að bæta öryggi og upplýsingagjöf í Dimmuborgum og Tjaldsvæðið Systragil sf hlaut 850 þkr til að bæta merkingar og tengingu við Þingmannaleið yfir Vaðlaheiði.

Á verkefnaáætlun Landsáætlunar eru flest verkefni á Norðurlandi eystra í umsjón Vatnajökulsþjóðgarðs, en meðal annarra eru Friðland Svarfdæla, Gásir, Hofstaðir í Laxárdal, Strípar við Mývatn, og Sauðanes á Langanesi.

Sjá nánar á vef Ferðamálastofu