Fjórða úthlutun VAXNA 2012-2013

Á fundi sínum 12. apríl sl. samþykkti verkefnisstjórn Vaxtarsamnings Norðausturlands að veita fjórum verkefnum vilyrði um þátttöku . Alls bárust sex umsóknir að þessu sinni þar sem sótt var um 13,2 mkr. en áætlaður heildarverkefniskostnaður var 27,4 mkr.

Heildarupphæð veittra styrkvilyrða var 6,5 mkr. og er heildarverkefniskostnaður þeirra verkefna sem vilyrði hlutu áætlaður um 19,4 mkr.

Með þessari úthlutun nú hefur verið úthlutað úr samningnum til 18 verkefna, samtals um 41,4 mkr. Lesa meira

Langanesbyggð - íbúaþing um atvinnumál og nýsköpun

 

Sveitarstjórn Langanesbyggðar hefur ákveðið að efna til íbúaþings um atvinnumál og nýsköpun laugardaginn 4. maí nk. og óskað eftir samstarfi við atvinnuþróunarfélagið um undirbúning og framkvæmd þess. Áhersla verður lögð á hugmyndaaugði íbúanna og megin þungi þingsins verður á “þankahríð” (e. brain storming) þeirra sem síðan verður unnið úr í samstarfi sveitarfélagsins og atvinnuþróunarfélagsins og niðurstöðurnar kynntar á öðrum fundi sem auglýstur verður síðar.

Dagskrá íbúaþingsins sem fram fer í Þórsveri er eftirfarandi:

  •   Kl. 10:00 Setning ráðstefnu – oddviti Langanesbyggðar
  • Kl. 10:05 Hin mörgu andlit stoðkerfisins, Jóna Matthíasdóttir starfsmaður AÞ
  • Kl. 10:20 Örfá orð um þróunina, Reinhard Reynisson framkvæmdastjóri AÞ
  • Kl. 10:35 Ævintýrið á Siglufirði, Sigríður M. Róbertsdóttir framkvæmdastjóri og Finnur Yngvi Kristinsson verkefnastjóri Rauðku ehf
  • Kl. 10:50 Kaffihlé
  • Kl. 11:00 Hópastarf hefst
  • Kl. 12:00 Hádegishlé
  • Kl. 13:00 Hópastarfi fram haldið
  • Kl. 14:30 Samantekt og næstu skref
  • Kl. 15:00 Fundarlok

Íbúar Langanesbyggðar eru hvattir til að taka daginn frá, mæta og taka virkan þátt í íbúaþinginu.

 

Stjórn SANA ályktar vegna uppbyggingar á Bakka

Stjórn SANA - samtaka atvinnurekenda á Norðausturlandi hefur sent frá sér eftirfarandi ályktun vegna afgreiðslu Alþingis á lögum sem styðja við fyrirhugaða atvinnuuppbyggingu á Bakka.

“Stjórn SANA – samtaka atvinnurekenda á Norðausturlandi – fagnar setningu Alþingis á dögunum á lögum um uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka og byggingar kísilvers. Stjórnin þakkar þeim þingmönnum sem samþykktu lögin sérstaklega þá framsýni sem í því felst, en með setningu laganna er stigið mikilvægt skref að atvinnuskapandi nýtingu orkuauðlinda í héraðinu. Lögin eru staðfesting þeirrar ójöfnu samkeppnisstöðu sem atvinnuuppbygging utan suðvesturhornsins á við að glíma og kemur að verulegu leiti til móts við hana. Sú uppbygging sem af þessu mun leiða er mikilvægur þáttur í því að efla atvinnustig og verðmætasköpun þjóðarbúsins og auka fjölbreytni í atvinnuháttum landshlutans, sem hefur alla burði til þess að þróa fjölbreytt atvinnu- og mannlíf á næstu áratugum og verða þannig raunverulegur valkostur við suðvesturhornið varðandi búsetu komandi kynslóða.”

Frummatsskýrsla kísilmálmverksmiðju PCC á Bakka

EFLA verkfræðistofa hf. fyrir hönd PCC Bakki Silicon hf. hefur tilkynnt til umfjöllunar Skipulagsstofnunnar frummatsskýrslu um kísilmálmverksmiðju PCC á Bakka við Húsavík.

Tillaga að ofangreindri framkvæmd og skýrsla um mat á umhverfisáhrifum hennar liggur frammi til kynningar frá 22. febrúar 2013 til 5. apríl 2013 á eftirtöldum stöðum: Á bókasafni Húsavíkur, í Þjóðarbókhlöðunni og hjá Skipulagsstofnun. Frummatsskýrslan er aðgengileg á heimasíðu EFLU verkfræðistofu hf.:http://www.efla.is og á vef PCC Bakki Silicon hf.: http://www.pcc.is.

Opið hús fyrir almenning og hagsmunaaðila til kynningar á verkefninu verður haldið á Fosshóteli á Húsavík, laugardaginn 9. mars frá klukkan 14 – 18.

Allir hafa rétt til að kynna sér framkvæmdina og leggja fram athugasemdir. Athugasemdir skulu vera skriflegar og berast eigi síðar en 5. apríl 2013 til Skipulagsstofnunar, Laugavegi 166, 150 Reykjavík. Þar fást ennfremur nánari upplýsingar um mat á umhverfisáhrifum.