Flýtitenglar

Hvatningarverðlaun AÞ

Hvatningarverðlaun Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga hafa verið árviss atburður í tengslum við aðalfundi félagsins frá árinu 2002, í samræmi við stjórnarsamþykkt sem gerð var 29. apríl það ár:

“Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga skal á hverju ári veita viðurkenningu, eina eða fleiri, fyrir framúrskarandi starf á starfssvæði félagsins.Viðurkenningin getur verið fyrir: Nýsköpun, góðan árangur í rekstri, frumkvæði eða annað það sem styrkir atvinnulífið og gerir það fjölbreyttara. Einnig er hægt að veita viðurkenningu fyrir góðan árangur í opinberri þjónustu og árangursríku menningarstarfi.Viðurkenninguna skal veita á aðalfundi félagsins ár hvert.“

Á aðalfundi félagsins sama ár gerði Pétur Snæbjörnsson, þáverandi formaður grein fyrir samþykktinni um leið og hann afhenti Guðna Halldórssyni, forstöðumanni Safnahússins á Húsavík fyrstu Hvatningarverðlaun AÞ:

„Tilgangur þessarar samþykktar er, að félagið veki athygli á því sem vel er gert í umhverfi okkar, ekki síst því sem ekki er mjög áberandi í dægur umræðunni. Einnig að viðurkenna sérstaklega það sem að mati stjórnarinnar horfir til framfara í samfélagi okkar og gerir það búvænna og skemmtilegra. Loks má nefna að tilgangurinn er ekki síst að reyna með þessu að örva frumkvöðla og ósérhlífna einstaklinga til góðra verka.“

Handhafar hvatningarverðlauna AÞ

2018 - Sigurður S. Þórarinsson og Hafdís Jósteinsdóttir  fyrir uppbyggingu á farsælum fjölskyldurekstri sem nú færist á herðar afkomenda.

2017 - Guðmundur Hafsteinsson og Karítas Jóhannesdóttir fyrir fádæma þrautseigju og hugvitsamlega nýtingu staðbundinna auðlinda til matvælaframleiðslu

2016 - Sælusápur - Lón 2 ehf.  fyrir frumkvöðlastarf og vandaða uppbyggingu framleiðslufyrirtækis sem eykur verðmæti hráefna af svæðinu.

2015 - Vélaverkstæðið Árteigi sf. hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi framleiðslustarfsemi þar sem hugvit og fádæma verkþekking eru tvinnuð saman til hagnýtingar vatnsafls.

2014 - Akursel ehf. hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi lífræna framleiðslustarfsemi sem byggir á sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda héraðsins.

2013Fiskeldið Haukamýri ehf. hlaut viðurkenningu fyrir þrautseigju og útsjónarsemi við uppbyggingu mikilvægrar framleiðslustarfsemi í héraðinu.

2012Mýflug hf. og stjórnendur félagsins hlutu viðurkenningu fyrir þrautseigju og útsjónarsemi við að halda úti sérhæfðri flugstarfsemi í meira en aldarfjórðung .

2011 - Ísfélag Vestmannaeyja, sem rekur starfsemi á Þórshöfn, hlaut viðurkenningu fyrir öfluga uppbyggingu í grunnatvinnuvegi á svæðinu sem skiptir sköpum um þróun og velferð samfélagsins.

2010 - Tveir aðilar hlutu Hvatningarverðlaun AÞ árið 2010.

Stóruvellir ehf, Garðar Jónsson, hlaut viðurkenningu fyrir frumkvæði og þrautseigju við uppbyggingu framleiðslustarfsemi sem byggir á nýtingu innlendra landbúnaðarafurða.

Handverkskonur milli heiða hlutu viðurkenningu fyrir öflugt félagsstarf sem örvað hefur framleiðslustarfsemi félagsmanna og gert hana að mikilvægum þætti í atvinnulífi héraðsins.

2009 - Hótel Norðurljós, Erlingur B. Thoroddsen hlaut viðurkenningu fyrir eftirtektarverðan árangur í rekstri ferðaþjónustu og óbilandi frumkvæði að nýsköpun sem styrkja mun svæðið sem áfangastað ferðamanna um ókomin ár.

2008 - Tveir aðilar hlutu Hvatningarverðlaun AÞ árið 2008.

Skóbúð Húsavíkur hlaut viðurkenningu fyrir mikilvæga og trygga þjónustu í áratugi sem m.a. spannar umbrotatíma í verslun á landsbyggðinni.

Hvalasafnið á Húsavík hlaut viðurkenningu fyrir árangursríkt frumkvöðlastarf sem skilað hefur sýningu á heimsmælikvarða og verið mikilvægur þáttur í uppbygginu ferðaþjónustu í héraðinu.

2007Garðræktarfélagi Reykhverfinga hlaut viðurkenningu fyrir áhuga, bjartsýni og framfarahug sem einkennt hefur fyrirtækið frá stofnun og ríkir enn við uppbyggingu og stækkun þess.

2006Meðferðarheimilið Árbót hlaut hvatningarverðlaun Atvinnuþróunarfélagsins á málþingi að loknum aðalfundi 2006.

2005Silkiprent og fánar á Þórshöfn hlaut viðurkenningu fyrir framkvæmdasemi, djörfung og víðsýni með flutningi á fyrirtæki í heimahérað.

2004 - Tveir aðilar hlutu Hvatningarverðlaun AÞ árið 2004.

Baðfélag Mývatnssveitar hlaut viðurkenningu fyrir að halda á lofti ákveðnum aldagömlum þætti í menningu og sögu Mývetninga, og hrinda um leið í framkvæmd áhugaverðum afþreyingar möguleika, sem án efa á eftir að stuðla að eflingu ferðaþjónustu á svæðinu.

Sel Hótel Mývatn hlaut viðurkenningu fyrir markvisst og árangursríkt starf við uppbyggingu ferðaþjónustu, nýjungar í afþreyingu og þjónustu, og mikla hugmyndaauðgi og framkvæmdasemi.

2003Fjallalamb hf. hlaut hvatningarverðlaun AÞ á aðalfundi félagsins 2003 fyrir markvisst og árangursríkt starf við matvælavinnslu, og að vera mikilvægur samnefnari sauðfjárbænda á starfssvæði sínu.

2002 - Með þessum fyrstu hvatningarverðlaunum félagsins hlaut Guðni Halldórsson, forstöðumaður Safnahússins á Húsavík viðurkenningu fyrir framúrskarandi menningarstarf, drift og frumkvæði á starfssvæði félagsins.