Beint á leiđarkerfi vefsins
Atvinnuţróunarfélag Ţingeyinga

30.8.2020

Ekki ein flík sem passar öllum

Áhugaverð grein birtist í Fréttablaðinu 22. ágúst sl. Þar er á ferðinni viðtal við sérfræðing danska efnahagsráðuneytisins sem fjallar um hvernig ráðstöfun styrkja til atvinnu- og byggðamála sé best háttað. Í máli hennar kemur m.a. fram að þarfir einstakra ríkja og svæða séu misjafnar og þær þekki heimamenn best. Því hafi Danir, eftir áralanga vinnu að því að bæta nýtingu styrkjanna, sett ákvarðanatöku í hendur byggðanna.

Efni greinarinnar er hér á eftir í heild en beinan tengil á greinina má finna hér neðst á síðunni.

Fénu verði ekki ráðstafað fyrir sunnan

Sérfræðingur danska efnahagsráðuneytisins leggur til að á Íslandi verði sett á fót ráð á hverju svæði til að ákveða hvernig eigi að eyða peningum úr byggða- og atvinnusjóðum ESB. Heimafólk sé hæfara til þess en stjórnsýslan fyrir sunnan.

Danir hafa í rúman áratug unnið skipulega að því að bæta nýtingu styrkja Evrópusambandsins, sem merktir eru atvinnumálum eða ætlaðir hinum dreifðari byggðum.

Susanne Kirkegaard BrodersenÞeir hafa fækkað milliliðum og lágmarkað það fé sem fer í stjórnsýsluna sjálfa. Ákvarðanir um fjárveitingar eru teknar úti á landi en ekki í höfuðborginni. Gangi Ísland í ESB mætti gera svipaða hluti þar, að mati Susanne Kirkegaard, sem er sérfræðingur danska efnahagsráðuneytisins í atvinnu- og byggðastefnu ESB.

„Við höfum leitað leiða til að laga þessar fjárveitingar að þörfum landsins sjálfs," segir Susanne, sem heimsótti íslensk stjórnvöld á dögunum og lagði til ráð í aðildarviðræðunum. Hún segir að stundum miðist styrktarsjóðir ESB helst við aðstæður stórra ríkja. Ísland sé hins vegar ekki stórt ríki.

„Þá þarf að spyrja hvort þetta borgi sig. Hvort peningarnir fari ekki bara allir í breytingar í stjórnsýslu frekar en verkefnin," segir Kirkegaard. Hún hefur því skoðað hvernig megi stýra þessum fjárveitingum landinu til hagsbóta og innan ramma ESB.

„Atvinnu- og byggðastefnan er ekki eins og ein flík sem á að passa öllum. Fjárfesting sem gengur vel í Rúmeníu gengur ekki endilega vel á Jótlandi," segir hún.

„Þess vegna höfum við sett ákvarðanatökuna í hendurnar á byggðunum. Það er til dæmis fólkið á Norður-Jótlandi sem ákveður hvernig á að eyða peningunum í því héraði. Við skiptum Danmörku í héruð og settum upp vaxtarráð í hverju og einu. Vaxtarráðin útdeila síðan fénu. Þannig mætti tryggja á Íslandi að peningunum yrði ekki öllum eytt í Reykjavík," segir hún.

Kirkegaard segir að í slíkum ráðum sitji fólk sem búi á svæðinu, fulltrúar úr ýmsum geirum samfélagsins, t.d. fulltrúar bænda, menntastofnana, úr bæjarráði og svo framvegis.

„Þetta fólk þekkir best styrk og veikleika síns heimasvæðis og getur ákveðið hvaða áherslur það vill hafa hverju sinni í vaxtaráætlun. Það veit hvað er sérstakt við svæðið og úr hverju þarf að bæta og ef t.d. þarf að gera átak í heilsu-gæslu er það bara auglýst og svo er öllum opið að sækja um verkefnið."

Greinarhöfundur: [email protected]

Bein slóð á greinina:
http://epaper.visir.is/media/201108220000/pdf_online/1_8.pdf


Stjórnborđ

Forsíđa vefsins Stćkka letur Minnka letur Hamur fyrir sjónskerta og lesblinda Senda ţessa síđu Prenta ţessa síđu Veftré Information in english

Myndir


Starfssvćđi