Fréttabréf AÞ, júlí 2000

Ný stjórn var kjörin á aðalfundi Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga fyrir nokkru. Hana skipa Pétur Snæbjörnsson, hótelstjóri í Reynihlíð, formaður, Aðalsteinn Baldursson, formaður Verkalýðsfélags Húsavíkur, varaform., Guðmundur Guðmundsson frá Byggðastofnun, ritari, Steindór Sigurðsson, sveitarstjóri Öxarfjarðarhrepps og Reinhard Reynisson, bæjarstjóri á Húsavík.

Fréttabréfið ræddi stuttlega við nýkjörinn stjórnarformann, Pétur Snæbjörnsson, um félagið og atvinnumál í héraðinu.

"Atvinnuþróunarfélagið þarf að marka sér ákveðna stefna og leggja það niður fyrir sér hvernig best sé að örva atvinnulífið til vaxtar í héraðinu. Við þurfum að reyna að finna og skilgreina hvað það er í baklandinu og samfélaginu sem gerir það að verkum að störf verða til og hverju þarf að breyta til að svo verði, í stað þess að einblína á fjölgun starfa með einhverri óskilgreindri happa og glappa aðferð.
Við þurfum t.d. að skoða það í alvöru hvort sveitarfélögin á svæðinu eru yfirleitt tilbúin til að taka við atvinnutækifærum sem hugsanlega bjóðast. Eru aðstæður með þeim hætti að fyrirtæki vilji hefja þar atvinnustarfsemi og eru sveitarfélögin í stakk búin til að taka við fólki og fyrirtækjum sem þó vilja koma? Margskonar starfsemi getur eins farið fram á þessu svæði eins og annarstaðar á landinu, en það sem oft ríður baggamuninn þegar fyrirtæki velja starfsemi sinni stað eða fólk búsetu, er að umhverfið og andrúmsloftið sé vinsamlegt og skilyrði hagstæð. Þingeysk sveitarfélög þurfa að fara að skoða þessi mál hjá sér og spyrja spurninga á borð við: Hver er afstaða okkar gagnvart fjárfestum og hvernig getum við skapað skilyrði sem laða að fyrirtæki og fólk sem hingað vilja koma? Og einnig og ekki síður, hvernig getum við haldið þeim fyrirtækjum og fólki sem fyrir eru á svæðinu?
Þetta er mál sem stjórn Atvinnuþróunarfélagsins ætlar að láta til sín taka og reyna að marka ákveðna stefnu, í samstarfi við sveitarfélögin, sem byggir á þessum grundvallaratriðum".
Pétur segist einnig telja að þó Atvinnuþróunarfélagið sé að stærstum hluta í eigu sveitarfélaganna, þá sé nauðsynlegt að fá fyrirtækin á svæðinu meira inn í félagið. "Frumkvæðið og krafturinn til að láta eitthvað gerast liggur hjá starfandi fyrirtækjum, fremur en hjá stjórnendum sveitarfélaga. Þeirra er svo að skapa skilyrðin til þess að atvinnurekstur fái að blómgast og dafna. Og sveitarfélögin þurfa að átta sig á því að þau eru í samkeppni um fyrirtæki og atvinnutækifæri og þeir sem bjóða best hafa mesta möguleika. Ef fjárfestir á einhverju sviði, hvort sem hann er að hugsa um stóriðju eða bara reiðahjólaleigu, sendir erindi til sveitarstjórnar með fyrirspurnum um aðstöðu og hugsanlega fyrirgreiðslu og fær það svar að engar lóðir séu til staðar en sjálfsagt að ræða málin þegar tími gefst til, þá snýr viðkomandi fjárfestir sér að sjálfsögðu annað þar sem móttökur eru jákvæðari og aðstaða þegar fyrir hendi".
"Sveitarfélögin verða að aðlagast breytingum í samfélaginu og gera það upp við sig hvert þau vilja stefna í framtíðinni og hvernig þau vilja sjá avinnu- og mannlíf á svæðinu á næstu árum og áratugum. Það gengur t.d. ekki lengur að fylgja alltaf sömu gömlu fjárgötunni og elta hina heilögu sauðkind hvað sem á dynur". Segir Pétur Snæbjörnsson, stjórnar-formaður AÞ.

Tryggvi Finnsson tók við starfi framkvæmdastjóra Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga um síðustu áramót af Árna Jósteinssyni. Tryggvi hefur víðtæka þekkingu og reynslu af atvinnumálum á svæðinu, hann starfaði í 26 ár sem framkvæmdastjóri Fiskiðjusamlags Húsavíkur, sat rúman áratug í bæjarstjórn Húsavíkur og átti þá m.a. sæti í atvinnumálanefnd. Þá var hann í stjórn Iðnþróunarfélagsins sem var forveri Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga. Áður en Tryggvi kom til starfa hjá AÞ um s.l. áramót, hafði hann unnið sem deildarstjóri Þróunarsviðs Íslenskra sjávarafurða í rúm 2 ár.
Tryggvi hefur notað tímann síðustu mánuði til að kynna sér starfsemi AÞ og fara yfir sviðið. "Það eru í raun þrír megin armar í starfsemi Atvinnuþróunarfélagsins. Í fyrsta lagi almenn ráðgjöf fyrir einstaklinga og fyrirtæki sem eru að velta fyrir sér hugmyndum í tengslum við atvinnuuppbyggingu. Í öðru lagi vinna við ákveðin verkefni sem koma frá sveitarfélögunum. Og í þriðja lagi verkefni sem unnin eru á landsvísu að frumkvæði Byggðastofnunar. Í kjölfar breytinga á starfsemi Byggðastofnunar voru útibú stofnunarinnar í landshlutunum lögð niður og atvinnuþróunarfélögin í kringum landið tóku við hlutverki þeirra. Þetta hefur leitt til þess að verkefni á landsvísu eru orðin töluverður þáttur af starfsemi atvinnuþróunarfélaganna og má t.d. nefna stórt verkefni sem var í vinnslu s.l. vetur undir formerkjunum: Búum til betri byggð."
- En hvað er að dómi Tryggva mest aðkallandi í starfi Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga á næstunni?
"Mín reynsla af þessu starfi undanfarna mánuði hefur sannfært mig um að það þurfi að efla samstarf sveitarfélaganna og Atvinnuþróunarfélagsins og raunar orðið aðkallandi að marka ákveðna stefnu í þeim efnum. Við þurfum að setja saman áætlun um sameiginleg verkefni félagsins og sveitarfélaganna á svæðinu á sviði atvinnumála, en ekki síður í tengslum við búsetuskilyrði á hverjum stað og í héraðinu sem heild.
Ég sé það fyrir mér að á haustdögum gætu hafist viðræður við fulltrúa sveitarstjórna á svæðinu um það hvernig þeir vilja sjá þetta samstarf þróast og í kjölfarið verður svo vonandi hægt að leggja línurnar og marka stefnuna á héraðsvísu."
Viðræður hafa verið í gangi milli Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga og Atvinnuþróunarfélags Eyfirðinga um að taka upp nánara samstarf á sviðum sem varða sameiginlega hagsmuni beggja héraða. "Á þessu stigi erum við fyrst og fremst að ræða um undirbúningsvinnu vegna nýtingar á þeirri miklu orku sem við erum með hér í Þingeyjarsýslum", segir Tryggvi Finnsson. Þegar er í gangi samstarf milli Þingeyinga og Eyfirðinga í tengslum við rannsóknir á hugsanlegri orkuöflum í Öxarfirði/Kelduhverfi og á Þeystareykjum.
Í haust verður væntanlega hafist handa við að kortleggja þá möguleika sem fyrir hendi eru á svæðinu, m.a. staðsetningu á stórum og meðalstórum iðjuverum. "Þá höfum við einnig og ekki síður áhuga á kostum sem eru smærri í sniðum og munum leita að hóflega stórum orkukaupendum á svæðinu", segir Tryggvi.
Hann telur að samstarf atvinnuþróunarfélaganna í Þingeyjarsýslum og Eyjafirði á sviði orkumálanna geti orðið vísir að víðtækara samstarfi þeirra í framtíðinni.

Fræðslumiðstöð Þingeyinga var stofnuð 25. september 1999 og hafði Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga veg og vanda að undirbúningsstarfinu sem Iðunn Antonsdóttir leiddi, en hún tók síðan við starfi framkvæmdastjóra Fræþings og er eini starfsmaður miðstöðvarinnar. Fræðslumiðstöð Þingeyinga hefur á sinni könnu fullorðinsfræðslu og símenntun á félagssvæðinu og er markmiðið m.a. að færa menntunar möguleikana nær íbúum Þingeyjarsýslna.
Iðunn Antonsdóttir segir að á vegum Fræþings, í samvinnu við fleiri aðila, sé nú unnið að samningum um kaup á fjarfundabúnaði sem staðsettur verður á Þórshöfn, Raufarhöfn, Kópaskeri, Húsavík og Laugum. "Ég er bjartsýn á að þetta markmið náist, jafnvel strax í haust, þó hugsanlega þurfi að bíða eftir fjarfundabúnaði til Kópaskers fram á næsta ár. En þegar þessi áfangi kemst í höfn, þá verður staðan sú að enginn íbúi Þingeyjarsýslna mun eiga lengri leið að fjarfundabúnaði en sem nemur um 30-40 mínúna akstri. Það þýðir að íbúar á svæðinu geta með góðu móti hafið fjarnám á háskólastigi, hvar svo sem þeir eru búsettir".
Iðunn segir að unnið sé að samningum við menntastofnanir sem bjóða upp á fjarnám og þannig sé stefnt að því að skrifa undir samninga við Háskólann á Akureyri 1. ágúst n.k. "Þar erum við fyrst og fremst að tala um leikskólakennaranám sem hæfist ekki seinna en haustið 2001".
Iðunn segir að íbúar svæðisins séu í æ ríkara mæli að vakna til vitundar um þá menntunar möguleika sem bjóðast með nýrri tækni. En auðvitað séu margir tvístígandi enda töluvert átak að
hefja nám kannski áratugum eftir að formlegri skólagöngu lauk. "Þess vegna skiptir miklu máli að vera með stutt undirbúningsnámskeið, t.d. í grunngreinum á borð við tölvunám, ensku, ritsmíðagerð, íslensku og námstækni, í því skyni að brúa bilið frá fyrri formlegri menntun yfir í það að hefja samfellt nám á ný eftir langt hlé".
Sérstakur markhópur Fræðslumiðstöðvar Þingeyinga á þessu ári er fólk sem hefur litla grunnmenntun eða hefur ekki stundað formlegt nám um langt skeið. "Við munum bjóða upp á náms- og starfsráðgjöf allsstaðar á svæðinu fólki að kostnaðarlausu. Og við viljum færa okkur út til fólksins í fyrirtækjunum og annarsstaðar þar sem það kemur saman í daglega lífinu. Í tengslum við Viku símenntunar, 4.-10. september n.k., munum við svo gefa út veglegan kynningarbækling um Fræðslumiðstöð Þingeyinga með kynningu á því sem við höfum upp á að bjóða, m.a. námskeiðsframboð næsta vetrar."
Fræþing stóð fyrir um 30 námskeiðum s.l. vetur og Iðunn segir að á þessu ári sé stefnt að því að ná til a.m.k. 300 manns með námskeiðsframboðum af ýmsu tagi. "Eitt helsta markmið okkar er að fólk sem býr úti á landi, m.a. hér í Þingeyjarsýslum, eða hyggst flytja þangað, geti stundað á
staðnum það nám sem hugur þess stendur til".

Skrifstofa Fræðslumiðstöðvar Þingeyinga er að Duggugerði 7, Kópaskeri.
Síminn þar er 465 2161 og netfangið er [email protected].

Atvinnuþróunarfélagið hefur sent frá sér umfangsmikla greiningu á sveitarfélögunum á starfssvæði félagsins, þar sem m.a. er gerð úttekt á búsetuskilyrðum og staðháttum í hverju sveitarfélagi, þróun íbúafjölda, kynskiptingu og aldursdreifingu og meðaltekjum í einstökum starfsgreinum miðað við landsmeðaltal. Gerð er grein fyrir atvinnuvegum og mannafla á vinnumarkaði, atvinnuleysisþróun, skólamálum, menningarmálum, umhverfismálum, þjónustu, orkumálum og auðlindum, svo nokkuð sé nefnt.
"Það má segja að þarna hafi verið safnað saman á einn stað öllum tiltækum upplýsingum um hvert sveitarfélag fyrir sig, upplýsingum sem hafa legið víða en sem hingað til hafa ekki verið dregnar saman í heildstæðan og aðgengilegan gagnabanka", segir Tryggvi Finnsson. Þessi sveitarfélagagreining er að dómi Tryggva hin gagnlegasta fyrir marga. "Ef sveitarfélög hyggjast fara í stefnumótunarvinnu, þá er þarna þegar búið að vinna hluta hennar með samantekt grunnupplýsinga sem eru nauðsynlegar þegar hugað er að stefnumótun, þannig að þetta sparar sveitarfélögunum kostnað og vinnu þegar þar að kemur. Ennfremur eru þarna mjög handhægar upplýsingar fyrir verðandi sveitarstjórnarmenn, sem vilja kynna sér málefni viðkomandi sveitarfélags ofan í kjölinn. Og síðast en ekki síst verður þessi gagnabanki opinn öllum íbúum svæðisins, því hann verður væntanlega tengdur inn á vefsíðu Atvinnuþróunarfélagsins og héraðsvefinn þegar þar að kemur. Og þar sem þessi skýrsla er í tölvutæku formi, þá er auðvelt að uppfæra hana þannig að á hverjum tíma séu þar inni nýjustu upplýsingar í hverjum málaflokki".

Unnið er að uppsetningu á vefsíðu Atvinnuþróunarfélagsins og þar verður að finna margvíslegar upplýsingar, m.a. tíundað hvað er helst í gangi og á döfinni á hverjum tíma hjá félaginu.

Þá hefur einnig verið tekin ákvörðun um það af stjórn félagsins að láta gera sérstakan héraðsvef fyrir báðar sýslurnar. Á þessum vef verður að finna upplýsingar sem koma ferðamönnum að gagni, m.a. um afþreyingu á svæðinu, samgöngur, gistingu, matsölustaði og aðra þjónustu. Ennfremur yrðu þarna upplýsingar um söguna og sögustaði, umhverfið og náttúruna.
Heimasíður sveitarfélaga og fyrirtækja á svæðinu yrðu svo tengdar héraðsvefnum, þannig að þar yrði að finna flest það sem ferðamönnum sem hingað hyggjast leggja leið sína vanhagar að vita um.
Og í raun er héraðsvefurinn (Þing-vefurinn?) ekki síður hugsaður fyrir íbúa á svæðinu, sem fengju þarna á einum stað aðgang að upplýsingum um hvaðeina sem er á döfinni á svæðinu á sviði menningar, lista, íþrótta og afþreyingar af ýmsu tagi. Og þessar upplýsingar hefðu ugglaust einnig áhrif út á við á þann hátt að gestir vefsíðunnar utan héraðs sæju þarna að stöðugt væri margt og mikið að gerast í þingeysku mannlífi.

Undirbúningsvinna við Héraðsvef Þingeyinga verður eitt af meginverkefnum nýráðins starfsmanns Atvinnu þróunarfélagsins, Magnúsar Gylfasonar, á næstunni.

Magnús Gylfason hóf nýverið störf hjá Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga. Magnús er 33 ára gamall og iðnrekstrarfræðingur að mennt. Undanfarin tvö ár hefur hann starfað sem kennari við Framhaldsskólann á Húsavík, en áður vann hann m.a. við sölu og markaðsmál og framleiðslustýringu hjá fyrirtækjum í Reykjavík.
Magnús segist telja að í Þingeyjarsýslum séu miklir möguleikar og ónotuð tækifæri í atvinnuuppbyggingu og það verði spennandi að fá að leggja þar hönd á plóginn. Hann minnist í því sambandi á upplýsingatækni, ferðamennsku og orkumálin.