Aðalfundur Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga hf.
Hótel Húsavík, 12. maí 2000, kl. 14:00

Fundargerð

Þetta gerðist.

Formaður félagsins, Aðalsteinn Á. Baldursson, setti fund, bauð fundarmenn velkomna og fór yfir lögmæti fundarins hvað varðar boðun og fundarsókn. Þá voru lögð fram umboð frá Húsavíkurkaupstað og Byggðastofnun.

Fyrir fundinum lá tillaga um fundarstjóra, formann félagsins, Aðalstein Á. Baldursson, og fundarritara, ritara stjórnar Reinhard Reynisson. Aðrar tillögur komu ekki fram og voru þeir því sjálfkjörnir til þeirra starfa.

Var síðan gengið til dagskrár skv. 14. gr. samþykkta félagsins:

1) Skýrsla stjórnar. Formaður stjórnar, Aðalsteinn Á.Baldursson flutti skýrsluna. Í máli hans kom m.a. fram að stjórnin hefur haldið níu fundi frá síðasta aðalfundi og að hjá félaginu urðu miklar mannabreytingar á árinu. Björn Sigurjónsson, markaðsfulltrúi lét af störfum í febrúar 1999 og var Margrét María Sigurðardóttir ráðin til starfa hjá félaginu frá sama tíma til að vinna að atvinnumálum kvenna, en til þess verkefnis hafði fengist sérstakur styrkur. Hún lét síðan af störfum hjá félaginu í sept. s.l. Framkvæmdastjóri félagsins, Árni Jósteinsson sagði síðan starfi sínu lausu í september og í hans stað var Tryggvi Finnsson ráðinn framkvæmdastjóri félagsins frá 1. nóv. s.l. Að síðustu hefur svo Magnús Gylfason verið ráðinn til starfa hjá félaginu og mun hann hefja störf um miðjan júní n.k.
Formaður gerði að sérstöku umtalsefni miklar hræringar í atvinnulífi
S-Þing. á árinu og þá neikvæðu umræðu íbúanna sem oft gerði erfið mál verri úrlausnar en ella. Á hinn bóginn benti hann einnig á þá miklu möguleika sem svæðið býr yfir, bæði hvað varðar náttúruauðlindir og einnig mannauð sem m.a. birtist í mikilli grósku í því sem kalla mætti "grasrótarstarf" í því að stofna til nýrra fyrirtækja og/eða endurreisa eldri.
Af einstökum verkefnum á starfsárinu má nefna atvinnuvegasýninguna Stórþing sem haldin var 19. og 20. júní, útgáfu fréttabréfs félagsins, samstarfsverkefni Byggðastofnunar og atvinnuþróunarfélaganna " Búum til betri byggð" sem var fundarröð um hina ýmsu búsetuþætti, stofnun Fræðslumiðstöðvar Þingeyinga, sem félagið tók virkan þátt í, vinnu að atvinnumálum kvenna og síðast en ekki síst verkefnið "Sveitarfélagagreining" sem er smíði gagnagrunns um stöðu byggðar í hverju sveitarfélagi á starfssvæðinu, en verkefnið var unnið að beiðni stjórnar Byggðastofnunar.
Félagið er nýflutt í nýtt og betra húsnæði á þriðju hæð Garðarsbrautar 5 (KÞ húsið) og er þar í sambýli við verkfræðistofuna Tækniþing, fasteignasöluna Eignaþing og sína fyrri sambýlinga, Ráðunautaþjónustuna og Landgræðsluna.
Félagið hefur með höndum rekstrur Kísilgúrsjóðs skv. sérstökum samningi. Haldnir voru fimm stjórnarfundir á starfsárinu og alls teknar til umfjöllunar 63 umsóknir um styrki, lán og hlutafé. Samtals var úthlutað 14 styrkjum og keypt hlutafé í 9 félögum fyrir samtals 12,3 millj. króna.
Af þeim verkefnum sem framundan eru bera orku- og iðnaðarmálin hæst enda vonir við það bundnar að þegar virkjuð háhitasvæði ásamt þeim sem rannsóknir eru hafnar á, eins og í Öxarfirði og á Þeistareykjum, geti í framtíðinni skapað svæðinu sterka stöðu varðandi staðsetningu ýmiskonar iðnaðar sem krefst mikillar orku, hvort sem er í formi raforku eða hitaorku. Liður í slíkri vinnu er formleg staðarvalsathugun á svæðinu með tilliti til þeirra kosta sem fyrir hendi þurfa að vera til að fýsilegt sé að setja niður slík fyrirtæki.
Kynningarmál og stefnumótun er sífellt viðfangsefni og fór formaður nokkrum orðum um þá hluti í máli sínu.
Að lokum þakkaði hann þeim starfsmönnum sem létu af störfum á árinu hjá félaginu vel unnin störf og bauð nýjan framkvæmdastjóra velkominn til starfa.
Skýrslu stjórnar verður dreift til hluthafa ásamt fundargerð þessari.

2) Reikningar 1999. Framkvæmdastjóri, Tryggvi Finnsson fór yfir reikninga félagsins sem áritaðir hafa verið athugasemdalaust af löggiltum endurskoðanda félagsins, Birni St. Haraldssyni og félagskjörnum skoðunarmanni, Vigfúsi Sigurðssyni. helsu niðurstöður reikninganna eru;
rekstrartekjur 15.384.734,- fastafjármnir 1.208.951,-
rekstrargjöld (15.298.982,-) veltufjármunir 1.683.842,-
fjármagnsliðir 28.400,- eigið fé 1.363.970,-
óreglulegir liðir (49.801,-) skuldir 1.528.823,-
hagnaður ársins 64.351,- niðurstaða efnah.2.892.793,-

Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga fóru fram samhliða og til máls tóku: Sigbjörn Gunnarsson, sem ræddi samstarf félagsins við önnur atvinnuþróunarfélög og spurðist fyrir um slíkt samstarf. Þá lýsti hann áhyggjum af stöðu atvinnumála og byggðar á svæðinu og taldi ekki að um grósku væri að ræða á þeim sviðum. Magnús Már Þorvaldsson minnti á slæmt ástand vegakerfisins í N-Þing. og hamlandi áhrif þess á atvinnulíf og almenna uppbyggingu byggðarinnar. Helga Erlingsdóttir lagði áherslu á sameiginlegt átak til þess að efla ýmsan smáiðnað á starfssvæði félagsins.
Formaður og framkvæmdastjóri brugðust við umræðunni, svöruðu fyrirspurnum og tóku efnislega undir þær áhyggjur sem fram komu í máli manna hvað varðaði stöðu byggðarinnar á svæðinu.
Að umræðum loknum voru reikningarnir bornir upp og samþykktir samhljóða.

3) Kosning stjórnar. Fundarstjóri kynnti tillögu sem fyrir fundinum lá frá aðalhluthöfum, Húsavíkurkaupstað og Byggðastofnun:
Aðalstjórn: Aðalsteinn Á. Baldursson
Guðmundur Guðmundsson
Pétur Snæbjörnsson
Reinhard Reynisson
Steindór Sigurðsson
Til vara: Dagur Jóhannesson
Helga Erlingsdóttir
Fleiri tillögur bárust ekki og eru ofanritaðir því sjálfkjörnir í stjórn og varastjórn.

4) Kosning endurskoðenda. Fyrir fundi lá tillaga um að löggiltur endurskoðandi félagsins yrði kjörinn PriceWaterhouseCoopers hf. - Björn St. Haraldsson, löggiltur endurskoðandi og félagskjörinn skoðunarmaður, Þorgrímur Sigurðsson. Fleiri tillögur komu ekki fram og eru endurskoðendur því sjálfkjörnir.

5) Þóknun stjórnar. Fyrir liggur tillaga um að stjórnarlaun verði kr. 20.000,- fyrir árið 2000 og laun formanns tvöföld sú upphæð. Tillagan samþykkt samhljóða.

6) Ráðstöfun hagnaðar/taps. Vísað er til afgreiðslu ársreiknings þar sem hagnaði ársins er ráðstafað til hækkunar á eigin fé félagsins.

7) Önnur mál. Fundarstjóri óskaði heimildar fundarins til að hann og ritari gengju frá fundargerð síðar og að hún yrði send út til yfirlestrar.


Fleira ekki gert, fundi slitið kl. 15:10.

Fundargerð ritaði, Reinhard Reynisson