Skýrsla stjórnar AÞ fyrir starfsárið 1999-2000

Árið 1999
Frá síðasta aðalfundi sem haldinn var í Hótel Reynihlíð 9. júlí 1999. hefur stjórn félagsins haldið 8 fundi. Á fyrsta fundi stjórnar sem haldinn var strax að loknum aðalfundi var Aðalsteinn Baldursson kjörinn formaður, Pétur Snæbjörnsson varaformaður og Reinhard Reynisson ritari. Í þessari skýrslu mun ég fara yfir það helsta sem unnið hefur verið að frá síðasta aðalfundi. Hjá félaginu urðu miklar mannabreytingar á árinu, Björn Sigurjónsson sem ráðinn var sem markaðsfulltrúi í byrjun árs 1998 lét af störfum í febrúar á síðasta ári eftir eins árs starf hjá félaginu. Margrét María Sigurðardóttir var í febrúar ráðin til að vinna að atvinnumálum kvenna, en til þessa verkefnis hafði fengist tveggja milljóna styrkur frá Vinnumálastofnun. María sagði starfi sínu lausu og hætti störfum í september s.l.. Framkvæmdastjóri félagsins Árni Jósteinsson tilkynnti á fundi stjórnar 8. september uppsögn sína hjá félaginu eftir farsælt starf frá því haustið 1997 eða í 2 ár. Árna er hér með þökkuð vel unnin störf fyrir félagið, og óskað velfarnaðar í framtíðinni.
Frá 1. nóvember var síðan Tryggvi Finnsson ráðinn framkvæmdastjóri félagsins. Undanfarin 5-6 ár hafa starfsmenn Atvinnuþróunarfélagsins að mestu verið tveir, framkvæmdastjóri og starfsmaður sem hefur haft kynningar og ferðamál á sinni könnu. Nú hefur stjórn félagsins ákveðið að ráða starfsmann, framkvæmdastjóranum til aðstoðar, án þess að skilgreina það nánar hvernig þeir skipti með sér verkum. Gert er ráð fyrir að þeir gangi í þau verk sem vinna þarf á hverjum tima. Auglýst var eftir starfsmanni með umsóknarfresti til 17. apríl. 10 umsóknir bárust, og hefur Magnús Gylfason iðnrekstrarfræðingur Húsavík verið ráðinn til félagsins. Gert er ráð fyrir að Magnús hefji störf um miðjan júní n.k.
Ársins 1999 verður eflaust minnst í sögunni fyrir mikla uppstokkun og breytingar í
S-Þingeyjarsýslu. Kaupfélag Þingeyinga komst í greiðsluþrot, en félagið hefur verið einn umsvifamesti atvinnurekandinn á svæðinu í áratugi og hefur sett mark sitt á mannlíf hér um slóðir í meira en 100 ár. Ekki verður fjallað nánar um málefni kaupfélagsins, en það er von okkar sem búum í þessu héraði að þau fyrirtæki sem stofnuð hafa verið utan um starfsemi kaupfélagsins eigi eftir að eflast, á það við um verslun, úrvinnslu afurða bænda og Íslenskan harðvið. Það er fleira en málefni KÞ sem valdið hafa áhyggjum á árinu og hefur mikil áhrif á búsetuskilyrði í Þingeyjarsýslum, má þar nefna samdrátt í landbúnaði, framtíð Kísiliðjunnar, ástand vega í N-þing, flugsamgöngur og ekki er neikvæð umræða íbúanna um menn og málefni til að bæta ástandið. Hér er því verk að vinna við að bæta búsetuskilyrðin, og auka fjölbreytni atvinnulífsins á svæðinu. Talið er að virkja megi allt að 1.000 MW af gufu á svæðinu frá Bjarnarflagi norður í Öxarfjörð, mikilvægt er að sú orka nýtist hér í héraðinu. Í ferðamennsku bíða mörg tækifæri, hvernig staðið hefur verið að markaðssetningu á hvalaskoðun hér á Húsavík, er gott dæmi um árangur þegar vel er að verki staðið. Skemmtileg hugmynd er Baðfélagið í Mývatnssveit, sem gæti, ef vel tekst til, haft svipuð áhrif á þróun ferðaþjónustunnar og hvalaskoðunin á Húsavík. Eitt brýnasta verkefnið í ferðaþjónustu er að bæta vegtengingu að Dettifossi, vatns mesta fossi Evrópu, þannig að fært verði að honum árið um kring.
Sem dæmi um mikla grósku og gerjun í atvinnulífi í Þingeyjarsýslum má nefna að á árinu voru stofnuð og endurreist á fimmta tug fyrirtækja.


Einstök verkefni
• Atvinnuvegasýningin Stórþing var haldin 19. og 20. júní, var þetta í annað sinn, sem sýningin var haldin og þótti takast vel. Ákveðið var að halda ekki sýningu nú í sumar. Taka þarf umræðu um hversu langt á að vera á milli sýninga, á að halda þær á hverju ári eða, annað eða þriðja hvert ár?
• Síðast liðið haust gaf félagið út fréttabréfið "Ílag", er það liður í að vekja athygli á starfsemi félagsins og örva íbúa og fyrirtæki á svæðinu til dáða í öllu því sem til framfara horfir í Þingeyjarsýslum. Samið var við Jóhannes Sigurjónsson um að ritstýra blaðinu. Í áætlun þessa árs er gert ráð fyrir að halda þessari útgáfu áfram.
• Með flutningi þróunarsviðs Byggðastofnunar til Sauðárkróks og samningi stofnunarinnar við atvinnuþróunarfélögin í landinu, sem undirritaður var í mars á síðasta ári, efldist mjög samstarf félaganna og Byggðastofnunar. S.l. haust var sett á laggirnar verkefnið "Búum til betri byggð". Þetta var samstarfsverkefni Þróunarsviðs Byggðastofnunar og Atvinnuþróunarfélaganna á landsbyggðinni, auk þess tóku þátt í verkefninu fulltrúar frá Háskólunum á Akureyri , Háskóla Íslands, Sambandi Íslenskra Sveitarfélaga og ýmsir fulltrúar sveitarfélaga. Fjallað var um ýmsa búsetuþætti aðra en atvinnumál. Teknir voru fyrir þættir eins og menning og afþreying, menntun, sjálfsmynd og ímynd, húsnæðismál, umhverfis- og skipulagsmál, félagsleg þjónusta, verslun, samgöngur og fjarskipti. Haldnir voru átta fundir á byggðabrúnni um þessi mál. Verkefninu lauk með vorfundi atvinnuráðgjafa og Byggðastofnunar þar sem settar voru fram fjölmargar tillögur og ályktanir og þeim beint til þeirra sem málið varðar.
• Atvinnuþróunarfélagið tók virkan þátt í undirbúningi að stofnun Fræðslumiðstöðvar Þingeyinga í samstarfi við ýmsa aðila á svæðinu. Ráðinn var sérstakur verkefnisstjóri, Iðunn Antonsdóttir, til að vinna að stofnun miðstöðvarinnar. Fræðslumiðstöð Þingeyinga var síðan stofnuð 25. september og voru stofnaðilar 36. Stjórn Fræþings réði síðan Iðunni Antonsdóttur framkvæmdastjóra miðstöðvarinnar, með aðsetur á Kópaskeri.
• Eins og fyrr er getið fékk Atvinnuþróunarfélagið styrk frá Vinnumálastofnun á árinu 1998 til að ráða kvennaráðgjafa, verkefni ráðgjafans var að vinna sérstaklega að atvinnumálum kvenna. Margrét María Sigurðardóttir var ráðin til þessa verkefnis í byrjun árs 1999 og vann að því þar til hún hætti störfum í september s.l. Helstu verkefni Maríu þann stutta tíma sem hún starfaði að verkefninu voru:
- Upplýsinga- og þróunarvinna, þar sem aflað var upplýsinga um stöðu kvenna á vinnumarkaðnum, fjölda kvenna í stjórnunarstörfum og um sambærileg verkefni á öðrum svæðum.
- Unnið var með handverksfólki og handverkshópum.
- Stofnun fræðslumiðstöðvarinnar var eitt af verkefnum ráðgjafans. Einnig var unnið með hugmynd um kvennasmiðju og föndurvinnustofu en slík stofa hefur starfað á Húsavík s.l. 2 vetur með góðum árangri.
- Skoðaðir voru áhugaverðir möguleikar á námskeiðum sem sérstaklega höfðuðu til kvenna t.d. námskeiðið "Reynslunni ríkari" sem haldið var af Iðntæknustofnun í samstarfi með Eyfirðingum.
- Í samstarfi við Félagsmálastofnun Þingeyinga var unnið að stofnun vinnustaðar fyrir fatlað fólk, verkefnið fékk vinnuheitið "Gróska". Stofnun Grósku er í biðstöðu af fjárhagsástæðum.
- Auk þess sem hér er upptalið vann ráðgjafinn ýmis önnur störf á vegum félagsins s.s. við undirbúning Stórþings.
• Á árinu 1998 barst Atvinnuþróunarfélaginu erindi frá þáverandi stjórnarformanni Byggðastofnunar Agli Jónsyni um að atvinnuþróunarfélögin á landsbyggðinni tækju saman upplýsingar um stöðu byggðar og sveitarfélaga, hver á sínu svæði. Þetta verkefni var komið vel á stað þegar Árni Jósteinsson sagði starfi sínu lausu, Að samkomulagi varð að Árni lyki þessu verki, sem sérverkefni, eftir að hann lét af störfum sem framkvæmdastjóri félagsins. Árni mun kynna verkefnið á fundinum hér á eftir. Í þessari skýrslu er safnað saman miklum upplýsingum um sveitarfélögin á svæðinu. Er það von stjórnarinnar að þessi skýrsla komi sveitarstjórnum að góðun notum í stefnumótunarvinnu,í viðræðum um sameiningu eða samstarf, og þegar nýjir sveitarstjórar og sveitastjórnarmenn koma til starfa. Einnig getur skýrslan verið góð handbók fyrir ýmsa þá sem vilja kynna sér svæðið.
• Eftir sem áður voru þó mörg hin smærri verkefni, aðstoð og þjónusta við smá fyrirtæki og einstaklinga fyrirferðamest í starfi félagsins.

Húsnæðismál
Allt frá stofnun félagsins hefur það verið til húsa í "Garðari" að Garðarsbraut 5, síðustu ár í góðu sambýli með Ráðunautaþjónustu Þingeyinga og fulltrúa Landgræðslunnar. Þetta húsnæði var orðið með öllu ófullnægjandi og félaginu ekki samboðið. Þessa dagana eru félögin að flytja sig um set á 3ju hæð í kaupfélagshúsinu og verða þar í sambýli með verkfræðistofunni Tækniþing og Fasteignasölunni Eignaþingi.

Kísilgúrsjóður
Eitt af verkefnum Atvinnuþróunarfélagsins er að hafa umsjón með rekstri Kísilgúrsjóðs, sjá um fjárreiður hans, undirbúa stjórnarfundi og aðstoða umsækjendur við gerð viðskiptaáætlana og annara gagna, sem krafist er vegna umsókna úr sjóðnum.
Haldnir voru 5 stjórnarfundir, teknar voru til umfjöllunar 63 umsóknir, veittir voru 14 styrkir og keypt hlutafé í 9 félögum samtals að upphæð 12,3 milljónir. Þessi mikla ásókn í styrki og hlutafé úr sjóðnum sýnir þá miklu þörf sem er á að Atvinnuþróunarfélögin hafi yfir að ráða góðum sjóði sem stutt getur við góðar hugmyndir og aðstoðað fyrirtæki og einstaklinga við að hrinda þeim í framkvæmd.

Verkefni framundan
Af verkefnum sem stjórn og starfsmenn þurfa að leggja áherslu á á næstu mánuðum vil ég nefna þrjú verkefni:
• Árni framkvæmdastjóri var búinn að vinna drög að gagnagrunni fyrir heimasíðu fyrir Atvinnuþróunarfélagið. Brýnt er að fullgera heimasíðuna og er fyrirhugað að fá Landvist ehf. á Húsavík til að vinna það verk með starfsmönnum félagsins.
• Orkufyrirtækin á Húsavík og Akureyri , Rarik og nokkur sveitarfélög í Þingeyjarsýslum hafa stofnað tvö fyrirtæki sem vinna að rannsóknum á háhitasvæðunum á Þeistareykjum og í Öxarfirði. Markmið okkar hlýtur að vera að þessi mikla orka, sem væntingar eru um að nýtanleg sé frá Bjarnarflagi við Mývatn í Öxarfjörð, verði nýtt til atvinnusköpunar hér á svæðinu. Til þess að svo verði þarf þegar í stað að fara að vinna ýmsar grunn upplýsingar um svæðin. Milli Aþ og Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar hafa verið í gangi viðræður um að vinna þetta verkefni sameiginlega og fá til þess styrk frá iðnaðarráðuneytinu. Markmið þessa verkefnis er að vinna upp gagnagrunn fyrir norðausturland. Gert er ráð fyrir tveggja ára verkefni, atvinnuþróunarfélögin munu hafa umsjón með verkefninu og starfsmenn þeirra vinna hluta þess, en öll sérhæfðari vinna verður keypt af sérfræðingum á svæðinu. Um er að ræða gagnagrunn sem í væri úttekt á:
- Iðnaðarsvæðum og einstökum iðnaðarlóðum
- Orkuleg úttekt á hverju svæði með tilliti til fjarlægðar frá orkuverum
- Jarðeðlisfræðilegar upplýsingar
- Hafnaraðstaða og samgöngumál
- Vinnumarkaður og félagslegt umhverfi
- Umhverfismál og fornminjar.
• Á síðasta aðalfundi félagsins urðu nokkrar umræður um stefnumótum félagsins og þörfina á að félagið endurskoði stefnu sína og markmið. Stjórn félagsins hefur rætt þessi mál á árinu en af ýmsum ástæðum er verkefnið ekki komið í gang enn þá, veldur því m.a. framkvæmdastjóra skipti hjá félaginu. Þetta hlýtur að verða forgangs verkefni nýrra stjórnar og ný ráðinna starfsmanna. Gott væri að fá umræður um þetta mál hér á eftir, sem veganesti fyrir stjórn og framkvæmdastjóra. Ýmsar spurningar koma upp í hugann varðandi framtíðina.
- Atvinnuþróunarfélögin á landsbyggðinni eru rekin með þrenns konar hætti, sem hlutafélög eins og hér, sem byggðasamlög eins og í Eyjafirði eða sem almenn félög eins og á austurlandi þar sem félagar eru sveitarfélög, Byggðastofnun og starfandi fyrirtæki á svæðinu
- AÞ er hlutafélag, hluthafarnir eru öll sveitarfélögin á svæðinu, Byggðastofnun, verkalýðsfélög, en auk þess örfá fyrirtæki.
- Viljum við breyta þessu?
- Hvað með aukið samstarf og þáttöku sem flestra fyrirtækja á svæðinu?
- Getum við gert AÞ sýnilegra á svæðinu.?
- Geta sveitarfélögin nýtt sér þjónustu félagsins enn frekar?

Niðurlag.
Að lokum vil ég þakka þeim starfsmönnum félagsins, sem hættu á árinu fyrir vel unnin störf. Sérstaklega vil ég þakka Árna Jósteinsyni fyrir farsælt starf fyrir félagið þau 2 ár sem hann var framkvæmdastjóri þess. Þá vil ég bjóða nýjan framkvæmdastjóra og nýráðinn starfsmann velkomna til starfa. Stjórnarmönnum og eigendum félagsins þakka ég samstarfið.