Flýtitenglar

Brothættar byggðir

 

Árið 2012 hófst tilraunaverkefni á Raufarhöfn að frumkvæði Byggðastofnunar. Verkefnið sem hlaut heitið „Brothættar byggðir“ nær nú að auki til Bíldudals, Breiðdalshrepps, Hríeyjar, Grímseyjar, Öxarfjarðar og Skaftárhrepps.

Markmiðið er m.a. að leiða fram skoðanir íbúanna sjálfra á framtíðarmöguleikum heimabyggðarinnar og leita lausna á þeirra forsendum í samvinnu við ríkisvaldið, landshlutasamtök, atvinnuþróunarfélag, sveitarfélagið, brottflutta íbúa og aðra.

Aðferðin byggist á að halda tveggja daga íbúaþing þar sem rædd er staða byggðarinnar og leiðir til úrlausna. Á íbúaþinginu leggja íbúarnir sjálfir til umræðuefni og raða viðfangsefnunum eftir mikilvægi. Framhald verkefnisins byggir á niðurstöðum íbúaþingsins og eru íbúar upplýstir um hvernig skilaboð þingsins eru höfð til hliðsjónar og málum fylgt eftir, t.d. með því að kynna áherslur íbúa fyrir ríkisvaldi og stofnunum.

Á starfssvæði Atvinnuþróunarfélagsins eru tvö undirverkefni í gangi, Raufarhöfn og framtíðin og Öxarfjörður í sókn.

Í verkefnisstjórn á hverjum stað sitja fulltrúar Byggðastofnunar, sveitarfélagsins, landshlutasamtaka sveitarfélaga, atvinnuþróunarfélags og íbúa. Verkefnið hefur nú þegar skilað umtalsverðum árangri við að virkja heimamenn.