Flýtitenglar

Héraðsnefnd Þingeyinga bs

Héraðsnefnd Þingeyinga varð til við samruna Héraðsnefnda Suður- og Norður-Þingeyinga, sem samþykktur var 1996 og tók formlega gildi í ársbyrjun 1997, en héraðsnefndir tóku við af sýslunefndum með nýjum sveitarstjórnarlögum nr. 8/1986. Með nýjum sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 voru héraðsnefndir aflagðar í því formi sem verið hafði og samstarf sveitarfélaga skilyrt með þeim hætti að það færi einungis fram í byggðasamlögum, með beinum samstarfssamningum eða í landshlutasamtökum.

Eftir þessar lagabreytingar hófst á vettvangi Héraðsnefndar Þingeyinga endurskoðun á samstarfi aðildarsveitarfélaganna, umræða um sameiginleg verkefni, og hagsmuni, umfang og umgjörð samstarfsins. Unnin voru drög að nýjum samþykktum til þess að fella samstarfið að breyttum lögum og var við þá vinnu lögð áhersla á að skilgreining samstarfsverkefna væri með þeim hætti að unnt væri að auka eða draga úr samstarfi eftir því sem æskilegt þætti á hverjum tíma, án þess að til þess þyrfti breytingar á samþykktum.

Stofnsamningur Héraðsnefndar Þingeyinga bs. var samþykktur á fundi Héraðsnefndar Þingeyinga 24. nóvember 2015.  Í umræðu kom fram einhugur um það upplegg sem stofnsamningurinn felur í sér; að styrkja sameiginlegan vettvang sveitarfélaganna í héraði og mynda umgjörð sem leyst geti sameiginleg rekstrarverkefni sveitarfélaganna skv. ákvörðun þeirra. Samningurinn var síðan samþykktur af aðildarsveitarfélögunum og loks staðfestur af innanríkisráðuneytinu 11. maí 2016.

Í stofnsamningi segir m.a.:

Verkefni byggðasamlagsins er að annast yfirstjórn og rekstur eftirtalinna stofnana og verkefna fyrir hönd sveitarfélaganna sem aðilar eru að byggðasamlaginu:

  • Almannavarnir skv. lögum um almannavarnir nr. 82/2008.
  • Barnaverndarnefnd skv. barnaverndarlögum nr. 80/2002.
  • Náttúruverndarnefnd skv. lögum um náttúruvernd nr. 60/2013.
  • Menningarmiðstöð Þingeyinga skv. skipulagsskrá sjálfseignarstofnunarinnar.
  • Eignarhald og rekstur ¾ hluta Þingeyjar í Skjálfandafljóti skv. afsali 15/6 1962.

Einnig skal byggðasamlagið annast yfirstjórn og rekstur þeirra stofnana og verkefna sem því kann að verða falið síðar samkvæmt sérstakri samþykkt allra sveitarstjórna aðildarsveitarfélaganna.Þá skal byggðasamlagið láta sig skipta sveitarstjórnarmál sem varða héraðið sem heild og tillögur um hvað eina sem verða má héraðinu til gagns.

Sex sveitarfélög eiga aðild að Héraðsnefnd Þingeyinga bs. Þau eru: Þingeyjarsveit, Skútustaðahreppur, Norðurþing, Tjörneshreppur, Svalbarðshreppur og Langanesbyggð.