Flýtitenglar

Samþykktir Héraðsnefndar

I. KAFLI

ALMENN ÁKVÆÐI OG HLUTVERK

1. grein
Heiti nefndarinnar er Héraðsnefnd Þingeyinga. Hún er stofnuð samkvæmt sveitarstjórnarlögum nr. 8/1986 og starfar skv. 8gr. sbr. VIII. kafla þeirra laga.
2. grein
Starfssvæði nefndarinnar eru eftirtalin sveitarfélög. Þingeyjarsveit, Skútustaðahreppur, Norðurþing , Tjörneshreppur, , Svalbarðshreppur og Langanesbyggð .
3. grein
Verði einhver af núverandi sveitarfélögum sameinuð, samanber 2. gr., yfirtekur hið nýja sveitarfélag eignir og skuldbindingar hinna fyrri sveitarfélaga gagnvart nefndinni.
4. grein
Merki Þingeyjarsýslu skal vera merki héraðsnefndar.
5. grein
Verkefni héraðsnefndar skulu vera þessi:

  • Verkefni þau sem héraðsnefnd eru falin með lögum á hverjum tíma.
  • Verkefni þau sem héraðsnefnd eru falin í skipulagsskrám og samþykktum sjóða og stofnana.
  • Verkefni sem varða héraðið sem heild, eða hluta þess og sveitarstjórnir samþykkja að fela henni.
  • Samráðsvettvangur sveitarfélaga á starfssvæðinu.

II. KAFLI

KOSNING TIL HÉRAÐSNEFNDAR

6. grein
Sveitarstjórnir skulu á fyrsta fundi, að afloknum hverjum sveitarstjórnarkosningum, þar með talið aukasveitarstjórnarkosningum vegna sameiningar, kjósa héraðsnefndarmenn, einn fyrir hvert sveitarfélag og annan til vara. Fyrir Norðurþing skulu þó kosnir tveir héraðsnefndarmenn og jafnmargir til vara. Kjörtímabil héraðsnefndar er hið sama og sveitarstjórna. Frá þeim tíma að nýar sveitarstjórnir taka við þar til ný Héraðsnefnd kemur saman, skulu engar ákvarðanir teknar sem ekki rúmast innan gildandi fjárhagsáætlunar.
7. grein
Héraðsnefnd fer með stjórn þeirra mála sem henni eru falin, samkvæmt ákvæðum samþykkta þessara, og ber að sjá um að þau verkefni séu rækt, og að fylgt sé þeim lögum og reglum er þar um fjalla.
8. grein
Héraðsnefnd kýs formann og varaformann úr sínum hópi. Hún kýs nefndir til að annast framkvæmd þeirra verkefna sem henni eru falin. Kosningar þessar skulu, að svo miklu leyti sem við verður komið, fara fram á fyrsta fundi nefndarinnar.
9. grein
Um skyldur og réttindi héraðsnefndarmanna fer eftir ákvæðum IV. kafla sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998 eftir því sem við getur átt. Sama er um starfsmenn héraðsnefndar.
10. grein
Héraðsnefnd getur ályktað um hvert það efni er hún telur varða héraðið og hagsmuni þess.

III. KAFLI

HÉRAÐSNEFNDARFUNDIR

11. grein
Forseti sveitarstjórnar Norðurþings skal kalla héraðsnefnd saman til fyrsta fundar að afloknum sveitarstjórnarkosningum, og eigi síðar en 31. júlí. Aldursforseti stýrir fundi þar til formaður hefur verið kjörinn. Formaður og varaformaður skulu kjörnir til fjögurra ára, nema héraðsnefnd ákveði annað á fyrsta fundi sínum. Ef formaður deyr, eða verður varanlega forfallaður á kjörtímabili sínu skal kjósa nýjan formann í hans stað.
12. grein
Héraðsnefnd skal halda a.m.k. fjóra reglulega fundi á ári , ársfjórðungslega . Til aukafundar skal boðað svo oft sem þörf krefur, að mati formanns og varaformanns , eða ef fjórðungur héraðsnefndarmanna krefst þess.
13. grein
Héraðsnefnd setur sér fundarsköp en þar til það er gert skal farið að almennum fundarsköpum nefnda sveitarfélaga.
14. grein
Formaður sér um að boða fundi héraðsnefndar og ákveður fundartíma og fundarstað. Fundir héraðsnefndar skulu boðaðir á tryggilegan hátt með dagskrá og með minnst viku fyrirvara.
15. grein
Héraðsnefnd er því aðeins ályktunarfær að minnst helmingur nefndarmanna sé á fundi. Við atkvæðagreiðslur ræður afl atkvæða. Séu atkvæði jöfn fellur málið, en við kosningar ræður hlutkesti.

Við atkvæðagreiðslu um fjárhagsmálefni, sem hafa í för með sér veruleg ólögboðin útgjöld fyrir aðildarsveitarfélögin, getur hvert einstakt sveitarfélag krafist þess að vægi atkvæða fari eftir framlögum til nefndarinnar samkvæmt 22. gr. samþykkta þessara. Til samþykktar í þeim málefnum sem í 4. setningu greinir, þarf minnst 2/3 hluta greiddra atkvæða.
16. grein
Formaður stjórnar umræðum og afgreiðslu mála á fundum héraðsnefndar. Hann sér um að fundargerðir séu rétt færðar til bókar og ræður fundarritara. Fundarmenn skulu undirrita fundargerðir.
17. grein
Heimilt er að kalla á fundi héraðsnefndar forstöðumenn stofnana sem reknar eru á vegum nefndarinnar, eða aðra, til skýrslugjafar um einstök málefni.

IV. KAFLI

FRAMKVÆMDASTJÓRN OG STARFSLIÐ HÉRAÐSNEFNDAR

18. grein
Héraðsnefnd ásamt framkvæmdastjóra fer með framkvæmda- og fjármálastjórn héraðsnefndar. Héraðsnefnd undirbýr árlega fjárhagsáætlun og leggur fyrir sveitarstjórnir. Héraðsnefnd hefur eftirlit með daglegum rekstri og gerð ársreikninga. Héraðsnefnd ákveður skiptingu og ráðstöfun fjár sem er óskipt í fjárhagsáætlun til einstakra málaflokka.
19. grein
Héraðsnefnd getur ráðið framkvæmdastjóra eða samið við einstakt sveitarfélag eða stofnun á vegum sveitarfélaga á starfsvæði nefndarinnar um að annast framkvæmdastjórn nefndarinnar. Framkvæmdastjóri starfar samkvæmt erindisbréfi sem héraðsnefnd setur honum eða samkvæmt samningi á milli Héraðsnefndar og viðkomandi stofnunar.

Framkvæmdastjóri undirbýr fundi héraðsnefndar og hefur á hendi framkvæmd þeirra ákvarðana sem þessir aðilar taka. Hann er prókúruhafi héraðsnefndar og æðsti yfirmaður starfsliðs hennar og stofnana.

Héraðsnefnd ræður forstöðumenn stofnana og embætta sem heyra undir Héraðsnefnd. Forstöðumenn ráða starfsmenn í aðrar stjórnunarstöður svo og fagfólk í samráði við Héraðsnefnd . Forstöðumenn ráða aðra starfsmenn í samræmi við heimiluð stöðugildi og fjárhagsáætlun hverju sinni. Starfskjör framkvæmdastjóra og forstöðumanna skal ákveða í ráðningarsamningi. Starfskjör annarra starfsmanna fara eftir kjarasamningi og ráðningarsamningi.

V. KAFLI

FJÁRMÁL HÉRAÐSNEFNDAR

20. grein
Reikningsár héraðsnefndar er almanaksárið. Héraðsnefnd ber að gera frumvarp að fjárhagsáætlun fyrir héraðsnefnd og stofnanir hennar. Héraðsnefnd skal senda sveitarstjórnum frumvarpið til umfjöllunar fyrir 1. nóvember. Hafi ekki borist athugasemdir við frumvarpið að 4 vikum liðnum skoðast það samþykkt af viðkomandi sveitarstjórnum. Fjárhagsáætlun telst samþykkt og bindandi fyrir öll aðildarsveitarfélögin þegar sveitarfélög sem bera 2/3 útgjalda hafa fallist á hana.
21. grein
Tekjustofnar héraðsnefndar eru þessir:

  • Tekjur af eignum.
  • Lögboðin framlög ríkis og sveitarfélaga til sérstakra verkefna sem undir héraðsnefnd heyra.
  • Sala á þjónustu.
  • Framlög aðildarsveitarfélaga skv. 20. gr.

22. grein
Það sem á vantar að tekjur héraðsnefndar, skv. 21. grein nægi til að mæta áformuðum útgjöldum ársins, skv. fjárhagsáætlun, skal jafnað niður á aðildarsveitarfélögin eftir íbúatölu hinn1. des. næstliðins árs.
Gjöldum þessum skal skipt í 11 mánaðarlegar eða 4 árfjóðungslegar greiðslur samkvæmt ákvörðun Héraðsnefndar Verði dráttur á greiðslu frá sveitarfélagi skal reikna dráttarvexti.
23. grein
Sveitarsjóðir aðildarsveitarfélaganna bera einfalda ábyrgð á skuldbindingum héraðsnefndar en innbyrðis skiptist ábyrgðin eftir reglum 22. greinar samþykktanna.
24. grein
Ársreikningar héraðsnefndar og stofnana á hennar vegum skulu lagðir fyrir héraðsnefnd eigi síðar en 30. maí ár hvert til fullnaðarafgreiðslu.
25. grein
Reikningar héraðsnefndar og stofnana hennar skulu settir upp og endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda, sem héraðsnefnd ræður til starfsins.

VI. KAFLI

ENDURSKOÐUN OG BREYTINGAR Á SAMÞYKKTUM

26. grein
Til breytinga á samþykktum þessum þarf samþykki 2/3 hluta atkvæða héraðsnefndarmanna, nema um sé að ræða breytingar sem leiða af breyttri löggjöf.
Samþykktirnar skulu endurskoðaðar á fimm ára fresti, eða eins oft og þurfa þykir.
Um úrsögn einstakra sveitarfélaga úr héraðsnefnd, eða um niðurlagningu hennar, gilda ákvæði 81 greinar sveitarstjórnarlaga nr. 45, 1998.

——————————————————————————-

Samþykktir þessar voru endurskoðaðar 2008 samanber fundarsamþykkt Héraðsnefndar 29.10.2020 og samþykktar af Héraðsnefnd á fundi 24.10.2008.

Samþykktir Héraðsnefndar Þingeyinga (pdf skjal)