Flýtitenglar

Lög og samþykktir

Lög Tengslanets kvenna á Norðausturlandi

1.gr.
Heiti félagsins er Urður – Tengslanet kvenna á Norðausturlandi. Heimili þess og varnarþing er skráð hjá formanni félagsins hverju sinni. Starfssvæði félagsins er Norðausturland, frá Vaðlaheiði í vestri til Bakkafjarðar í austri

2.gr.
Markmið félagsins er að;
· efla samstöðu og samstarf kvenna,
· efla félagskonur í stjórnunar-, rekstrar- og félagsstörfum eða öðru, sem styrkt getur persónulega og faglega færni þeirra.

3.gr.
Markmiðum sínum hyggst félagið ná með því að standa að;
· viðburðum, funda- og námskeiðahaldi,
· upplýsinga- og tengslaveitu á Netinu,
· annarri fræðslu- og upplýsingastarfsemi.

4.gr.
Tekjur félagsins eru félagsgjöld, styrkir, vaxtatekjur og aðrar tekjur sem kunna að verða af rekstri eða einstökum verkefnum félagsins.

5. gr.
Félagið er opið öllum konum á og frá Norðausturlandi. Upphæð félagsgjalda skal ákveðin á aðalfundi félagsins ár hvert. Rétt til setu á fundum félagsins hafa allar félagskonur sem hafa greitt árgjald fyrir næstliðið ár. Hafi það ekki verið gert er litið svo á að viðkomandi hafi sagt sig úr félaginu.

6. gr.
Reiknings- og starfsár félagsins er almanaksárið. Leggja skal ársreikning félagsins fyrir aðalfund ár hvert. Gerð ársreiknings fyrir nýliðið ár skal lokið tveimur vikum fyrir aðalfund hið minnsta og lagður fyrir kjörna skoðunarmenn félagsins.

7.gr.
Aðalfund félagsins skal halda fyrir lok maí ár hvert. Til aðalfundar skal boða með tryggum hætti með 10 daga fyrirvara hið minnsta og telst hann löglegur sé löglega til hans boðað. Afl meirihluta atkvæða ræður úrslitum á aðalfundi nema annað sé sérstaklega tekið fram í lögum þessum.
Dagskrá aðalfundar skal vera svohljóðandi:
1. Skýrsla stjórnar.
2. Stjórn leggur fram áritaða reikninga félagsins borinn upp til samþykktar.
3. Umræður um skýrslur, ársreikninga, ársreikningur borinn upp.
4. Lagabreytingar.
5. Ákvörðun félagsgjalda og gjalddaga þeirra.
6. Kosning formanns til eins árs.
7. Kosning tveggja aðalmanna og tveggja varamanna í stjórn til eins árs.
8. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga til eins árs.
9. Önnur mál.

8.gr.
Lögum félagsins verður aðeins breytt á aðalfundi. Tillögum að lagabreytingum skal skila 20 dögum fyrir aðalfund til stjórnar og skal í fundarboði geta þess ef lagabreytingatillaga hefur komið fram.

Hljóti lagabreytingatillaga samþykki 2/3 hluta fundarmanna telst hún samþykkt.

9.gr.
Stjórn félagsins skipa þrjár konur og tvær til vara. Formaður er kosinn sérstaklega á aðalfundi, að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum á fyrsta fundi. Stjórn félagsins annast daglegan rekstur og ræður málefnum félagsins með þeim takmörkunum sem lög þessi setja. Stjórn er ábyrg fyrir fjárreiðum og skuldbindingum félagsins. Stjórnarfundi skal boða með tryggum hætti. Stjórnarfundur er ályktunarhæfur ef minnst þrjár konur úr stjórn og varastjórn sækja fund. Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum. Ef atkvæði falla jafnt ræður atkvæði formanns.

10. gr.
Stjórn félagsins er skylt að efna til almenns félagsfundar ef minnst fimmtungur félagskvenna óskar þess. Almennir fundir og viðburðir skulu boðaðir á tryggilegan máta með minnst sjö daga fyrirvara.

11. gr.
Ákvörðun um slit félagsins er háð samþykki 2/3 hluta félagskvenna á félagsfundi, þar sem jafnframt skal ákveðið um meðferð eigna félagsins og skuldbindinga Komi til slita félagsins skulu skjöl þess og fundargerðir afhent Kvennasögusafni Íslands.

Samþykkt á stofnfundi 15. janúar 2010 og með lagabreytingum á aðalfundi 26. maí 2014.