Aðaldælahreppur

Aðaldælahreppur nær yfir Aðaldal og hluta Reykjahverfis. Að vestanverðu fylgja hreppamörk Sjálfandafljóti frá flóa og upp undir fossinn Skipapoll en liggja síðan austur yfir Fljótsheiði (Mánafell) í Vestmannsvatn, þaðan yfir Múlaheiði í botn Þegjandadals en síðan norður eftir brún Þorgerðarfjalls austur í Laxá, sunnan gljúfra, og þaðan upp yfir Kasthvammsheiði og austur um heiðar til Þeistareykjalands. Að austanverðu eru hreppamörk að norðan skammt vestan ósa Laxár suður undir flugvöll en fylgja síðan miðri Hvammsheiði suður að eyðibýlinu Hólskoti og liggja þaðan austur yfir heiði til Þeistareykjalands en Þeistareykir eru í Aðaldælahreppi. Syðstu bæirnir í Reykjahverfi tilheyra því Aðaldælahreppi. Byggð í Aðaldal er nokkuð óregluleg en því valda heiðar, hraun og vötn. Þéttbýlt er sumstaðar en gisnara annarsstaðar og norðan Garðsnúps er meginhluti dalsins óbyggilegt hraun og sandar. Þar standa bæirnir í útjöðrum hraunsins við gróðurlendi meðfram Laxá og Skjálfandafljóti. Norðausturhluti Aðaldalshrauns er örfoka en þar er nú sandgræðslugirðing. Að öðru leyti er hraunið víðast gróið hrís og lyngi. Birkiskógur þekur stór svæði um mið og suðurhluta hraunsins og Aðaldælahreppur er á heildina litið eitt best gróna sveitarfélagið í suður Þingeyjarsýslu.

Sveitarfélaga nr.:

6609
Íbúafjöldi:
298 þann 1. desember 1999
Fjöldi einstaklinga á vinnumarkaði:
140 (námsfólk, öryrkjar, húsmæður o.fl. telst utan vinnumarkaðs ).
Stærð hreppsins:
260 km²
Aðliggjandi sveitarfélög:
Reykjadals-, Keldunes-, Skútustaða-, Reykdæla- og Ljósavatnshreppur.
Helstu ár:
Laxá í Aðaldal (59 km, 60 m³/sek), Skjálfandafljót, Eyvindarlækur, Reykjakvísl.
Vegalengdir frá Hafralæk:
Húsavík 20 km, Akureyri 71 km, Reykjahlíð 42 km.
Helstu vötn:
Vestmannsvatn (2,38 km²), Múlavatn, Kringluvatn, Langavatn, Mýravatn og Miklavatn.
Friðlýst svæði:
Laxá og nánasta umhverfi, Vestmannsvatn, hluti Hólasands.
Náttúruminjar:
Gervigígar og gervigígaþyrpingar (v. Knútsstaði o.fl), votlendi á Sandi og Sílalæk, Þeistareykir, Stóra- og Litla-Víti á Þeistareykjabungu.

Til baka