Kelduneshreppur

Kelduneshreppur er vestasti hreppur Norður-Þingeyjarsýslu og nær yfir láglendið inn af vestanverðum Öxarfirði og heiðalönd þar inn af. Að vestanverðu fylgja hreppamörk frá sjó við Knarrarbrekkutanga suður Tjörnesfjallgarðinn eftir vatnaskilum og í Olnboga í Jóhannsgili í Grísatungufjöllum. Þaðan liggja mörk til austurs að Rauðhól í Eyjólfshæð og þaðan til suðurs eftir Bunuvegg á móts við sunnanverð Hrútafjöll, síðan austur um þau að Eilíf og áfram í Dettifoss. Jökulsá ræður eftir það mörkum til sjávar í Öxarfirði. Byggð í Kelduneshreppi er nokkuð dreifð, þéttust við Skúlagarð annars vegar og Ásbyrgi hins vegar. Sveitin liggur móti opnu hafi úr norðri og er landslag nokkuð fjölbreytt. Með sjónum er sandströnd fyrir öllum fjarðarbotninum og þar innaf stórt flæmi sléttra sanda og mýrlendis og er það allt myndað af framburði Jökulsár á löngum tíma. Sunnan sléttlendisins tekur við vel gróið heiðarland sem smá hækkar til suðurs allt til hreppamarka. Á heiðinni er ríkjandi lyng og kjarrgróður, þó nokkuð blandinn grasi. Á vesturmörkum sveitarinnar er fjallgarður, oft nefndur Fjallafjöll, ávöl og nokkuð há (Þríklakkur 727 m.). Þarna er gróður fjölbreyttari en á heiðinni og meira graslendi neðan til. Fjöllin eru að mestu gróin til efstu brúna. Stór hluti Kelduneshrepps er innan þjóðgarðsmarka auk þess sem Landræðslan hefur sett upp umfangsmiklar landgræðslugirðingar (Þjóðgarður og landgræðslugirðingar 172 km²). Á árinu 1976 urðu miklar jarðhræringar í Öxarfirði með miklu landsigi og myndaðist Skjálftavatn í þeim hræringum.

Sveitarfélaga nr.:

6701
Íbúafjöldi:
94 þann 1. desember 1999
Fjöldi einstaklinga á vinnumarkaði:
39 ársverk
Stærð hreppsins:
749 km² með afréttum (byggðin er 121 km²)
Aðliggjandi sveitarfélög:
Tjörnes-, Öxarfjarðar-, Skútustaða-, Aðaldæla-, Reykjahreppur og Húsavík.
Helstu ár:
Jökulsá á Fjöllum (206 km, 183 m³ ) og Litlá.
Vegalengdir frá Skúlagarði:
Húsavík 53 km, Akureyri 144 km.
Helstu vötn:
Lónin (tengd sjó), Víkingavatn, Skjálftavatn og Árnaneslón.
Friðlýst svæði:
Þjóðgarðurinn (Dettifoss, Hólmatungur, Vesturdalur, Hljóðaklettar og Ásbyrgi)
Náttúruminjar:
Votlendi við Öxarfjörð, Meiðavallaskógur.
Staðbundin sérstaða: Annáluð náttúrufegurð, jarðhiti, kjöraðstæður f. fiskeldi, í þjóðleið N. austur

Til baka