Reykdælahreppur

Mörk Reykdælahrepps að vestanverðu er Skjálfandafljót milli Rauðár og Skipapolls. Frá Skipapolli liggja hreppamörk síðan austur yfir Fljótsheiði (Mánafell) í Vestmannsvatn, þaðan yfir Múlaheiði í botn Þegjandadals en síðan norður eftir brún Þorgerðarfjalls austur í Laxá, sunnan gljúfra, og þaðan upp yfir Kasthvammsheiði og austur um heiðar til Þeistareykjalands og tilheyrir Laxárdalur Reykdælahreppi. Að sunnanverðu liggja mörk milli Skútustaðahrepps og Reykdælahrepps um heiðar sunnan Másvatns og Laugasels, þaðan eftir Fljótsheiði (hreppamörk milli Bárðdæla- og Reykdælahrepps ) norður að Rauðá og út að Skjálfandafljóti. Byggð í Reykdælahreppi er um margt óregluleg þ.e. í fyrsta lagi nokkrir bæir vestan Fljótsheiðar (Vaðsbæir) þá þéttbýliskjarninn á Laugum en þar búa um 40% íbúa hreppsins (auk aðkominna nemenda á hverjum tíma), síðan hin dreifðu býli í Reykjadalnum og loks fáein býli í Laxárdal. Reykdælahreppur er almennt vel gróinn og lítið jarðvegsrof utan þess hluta hreppsins sem tilheyrir Hólasandi. Umtalsverð skógrækt er í hreppnum (Skógræktarfélag Þingeynga) m.a. eru skógar í Vatnshlíð og innarlega í Narfastaðafelli. Hitaveita er í Reykjadal (á Laugum 70 l/sek af 65°C og á Brún 5 l/sek af 50°C) og njóta flestir íbúar hreppsins jarðhita.

Sveitarfélaga nr.:

6608
Íbúafjöldi:
259 þann 1. desember 1999
Fjöldi einstaklinga á vinnumarkaði:
140 (námsfólk, öryrkjar, húsmæður o.fl. telst utan vinnumarkaðs ).
Stærð hreppsins:
389 km², þar af Hólasandur 59 km².
Aðliggjandi sveitarfélög:
Aðaldæla-, Ljósavatns-, Bárðdæla- og Skútustaðahreppur.
Helstu ár:
Láxá (Laxárdalur), Reykjadalsá, hluti Skjálfandafljóts, Seljadalsá, Máslækur.
Vegalengdir frá Laugum:
Húsavík 38 km, Akureyri 59 km, Reykjahlíð 40 km.
Helstu vötn:
Vestmannsvatn (að hluta til 2,38 km²), Másvatn (3,49 km²), Kringluvatn.
Friðlýst svæði:
Laxá og nánasta umhverfi, Vestmannsvatn, hluti Hólasands, Varastaðaskógur.
Náttúruminjar:
Þingey, jörðin Halldórsstaðir (heiðin og Laxá)
Staðbundin sérkenni: þéttbýlið að Laugum, nálægðin við Mývatnssveit, Húsavík og Akureyri.

Til baka