Flýtitenglar

Fuglastígur á Norðausturlandi

Atvinnuþróunarfélagið hefur í samstarfi við ýmsa aðila unnið að því um alllangt skeið að efla ferðaþjónustu tengda fuglaskoðun á Norðausturlandi.  Hugtakið um Fuglastígur á Norðaustulandi þróaðist innan strandmenningarvekefnisins NORCE sem AÞ tók þátt í ásamt 15 öðrum aðilum frá 9 löndum.

Í tengslum við það verkefni var m.a. staðið fyrir útgáfu bæklinga á íslensku og ensku um Fugla á strandsvæðum Þingeyjarsýslu í samstarfi við Náttúrustofu Norðausturlands og Félag fuglaáhugamanna í Þingeyjarsýslum. Í bæklingunum var listi yfir þá fugla sem finnast á svæðinu og hvenær helst er að sjá þá. Þar voru einnig  kortlagðir yfir 30 áhugaverðir fuglaskoðunarstaðir á strandsvæði Þingeyjarsýslu.

Á vegum verkefnisins var einnig unnið að hönnun og gerð upplýsingaskilta og voru fjögur skilti reist í fyrsta áfanga; við Kópasker, Leirhöfn, Rauðanúp og Harðbaksvík. Þegar NORCE verkefninu lauk, árið 2007 var vinnu við Fuglastíg haldið áfram eftir því sem hægt var í gegnum önnur vekefni á vegum AÞ.

Í metnaðarfullri stefnumótun í ferðaþjónustu á Norðausturlandi, sem AÞ réðst í fyrir skömmu í samstarfi við fleiri aðila, var fuglaskoðun eitt af níu áhersluatriðum sem sérstaklega voru tekin fyrir. Í tengslum við stefnumótunarvinnuna var unnin ítarleg stöðuskýrsla og í henni voru fuglaskoðunarstaðir um allt svæðið skilgreindir frekar. Þá var einnig haldin námssmiðja um fuglaskoðun og ferðaþjónustu í maí 2008 í tengslum við verkefnið.

Ýmsir ráðgjafar, innlendir sem erlendir, hafa miðlað af þekkingu sinni til verkefnisins hvað varðar uppbyggingu ferðaþjónustu í kringum fuglaskoðun, markaðssetningu og annað, en Náttúrustofa Norðausturlands og Félag fuglaáhugamanna í Þingeyjarsýslum hafa verið hinn faglegi bakhjarl hvað varðar fuglalíf á svæðinu, enda hvergi að finna meiri þekkingu á því sviði.

Í janúar 2009 stóð Útflutningsráð fyrir ráðstefnu um fuglaskoðunarferðir á Íslandi og sótti ráðstefnuna öflugur hópur frá Norðausturlandi.

Í apríl stóðu AÞ og Útflutningsráð í sameiningu fyrir fundi um fuglaskoðun á Norðausturlandi sem haldin var í Gljúfrastofu. Þar voru m.a. ákveðið að stofna til klasasamstarfs á þessu sviði á Norðausturlandi.

Samtök um fuglatengda ferðaþjónustu voru stofnuð í júní 2009 og var AÞ meðal stofnaðila fyrir hönd Fuglastígs á Norðausturlandi, en hugmyndin er að samtökin séu regnhlífarsamtök svæðisbundinna klasa á sviði fuglaskoðunar í ferðaþjónustu.

Sumarið 2009 kom út á vegum AÞ og NNA nýr fuglavísir á ensku undir heitinu Birdtrail at the Edge of the Arctic og nær hann til alls svæðisins. Útgáfan var liður í þátttöku í sameiginlegum kynningarbás á fuglaskoðunarhátíðinni Birdfair, eða The British Birdwatching Fair sem haldin var við Rutland Water í Northampton á Englandi. Á sýninguna fóru þau Þorkell Lindberg Þórarinsson hjá Náttúrustofu Norðausturlands og Vilborg Arna Gissurardóttir hjá AÞ sem fulltrúar fyrir Fuglastíg Norðausturlandi.

Í nóvember 2009 var haldinn undirbúningsfundur að stofnun klasa um Fuglastíg á Norðausturlandi. Var þar skipaður undirbúningshópur til að vinna að undibúningi á stofnun formlegs félags. Formlegur Stofnfundur Fuglastígs á Norðausturlandi var svo haldinn í Gljúfrastofu 2. mars 2010.

Vefsíða Fuglastígs á Norðausturlandi er www.birdingtrail.is